Eva Joly, hvað?

Mér hefur fundist dálítið merkileg skrif hafa komið fram um Evu Joly og hennar afskipti hér á landi. Ég er nú ekki beint einn af þeim sem álíta að í hverri grein atvinnulífsins þurf að vera kvenna- eitthvað. En hún hefur sko tekið til hendinni svo um munar, og má líkja henni við súperræstitækni, sem hefur flett ofan af skítnum í ranni opinbera geirans og gert verulegan skurk í að moka flórana í bankafjósunum. Ég hef fengið það á tilfinninguna eftir yfirlýsingar hennar tengdu starfi sem hún hefur haft sem sérlegur ráðgjafi, að hún hafi nokkuð til síns máls. Þar með tek ég það alvarlega þegar hún telur að Magma sé loðið fyrirtæki. Það sem meira er, að sennilega veit hún meira um það apparat en hún segir berum orðum. Þess vegna bendir hún á að það þurfi að rannsaka það mál aðeins betur.

Ég tek mátulega mark á neikvæðum skrifum um þennan ráðgjafa, þar sem ég geri ráð fyrir að skríbentarnir séu ekki sitjandi í skuldasúpu, atvinnulausir og velja um það á hverjum degi, hvort það eigi að vera vatnsgrautur eða bónusbrauð í kvöldmatinn. Allavega ekki úr hinni afhausuðu millistétt umtalaðri.

Sem betur fer lítur út fyrir að Sérstakur Saksóknari láti ekkert á sig fá og óska ég honum til hamingju með nýjan starfsvettvang.


Æ, nú gerist það aftur....

 Mér sýnist mál vera að þróast þannig, að Bretar og Hollendingar verði sjálfir að greiða þessa blessuðu IceSave skuld til sinna þegna. Og þegar upp verður staðið, að Tjallarnir verði að athlægi enn einu sinni í viðskiptum sínum við Íshestana í norðri. Þeir voru halastífðir á síðustu öld og enn er smá stubbur eftir á Ljóninu til þess að klippa af. Kannski hleypur svo illska í allt saman og gamla hræið verður annaðhvort kúrerað hérna heima eða svæft endanlega.

Reyndar eigum við inni nokkur pund hjá grönnum okkar, ef farið væri út í þá sálma. Svona lauslega 100.000.000.000- evra, ef notuð er 5,5% reglan á vaxtakjörum. Þetta eru eitthvað um 1,8 í þrettánda veldi krónur. Reyndar var ég hógvær þegar ég áætlaði að þeir hefðu tekið héðan u.þ.b. 250 þúsund tonn af fiski í 30 ár, á 5 evrur kílóið. Og svo vexti frá þeim tíma sem þeir gáfust upp 1975. Nú svo er það tjónið sem þeir ollu með frystingu eigna og setningu hryðjuverkalaga. Stórfelt tjón á nátturu landsins á stríðsárunum, sem enn er víða að sjá. Nokkur mannslíf og svona mætti lengi telja.

Væri ekki mál að senda köllunum reikning svona í byrjun árs, og sjá hvort þeir borga ekki fyrir vorjafndægur. Þetta eru bara smáupphæðir per haus í GB eða um 1600 evrur. Þeir hefðu bara gaman af því að leggja í púkkið. Allavega miðað við að þeir ætlist til að íslenskir þegnar greiði milli 10,000 og 30,000 evrur per haus.

En eins og ég minntist á í upphafi, þá verður þetta jafnað út, og allir verða ánægðir með sitt. Enda eru Tjallarnir með alla IceSave aurana í Breskum bönkum eða því sem næst. Ætli maður verði ekki að telja Cayman og öll þau sandrif til GB. Þeir ætluðu bara að reyna að fá þetta tvisvar með smá handrukkun.

Og hana nú.

 


Aumingja Svavar Gestsson......

Einu sinni var lítil stelpa sem ætlaði að lýsa aðstæðum pabba síns sem var á sjó um jólin. "Pabbi minn er aumingi því hann verður úti á sjó um jólin". Ég held að þetta atriði eigi vel við, þó bókstaflega samt.

Ekki veit ég hvernig manninum datt í hug, í fyrsta lagi að lýsa yfir leti sinni í samningagerðinni um Icesave. "Ég nennti þessu ekki lengur" var haft eftir honum. Í öðru lagi að fjarlægja gögn sem skiptu verulegu máli í meðhöndlum stjórnvalds á þessu máli, og halda að hann kæmist upp með þetta allt saman. Svo er það náttúrulega spurningin: Hvað meira er hann búinn að afreka í gegnum tíðina?

Ekki veit ég um aðra, en í mínum huga er ég búinn að strippa allar medalíur og borða af karlinum. Reka hann úr starfi með skömm. Svifta hann öllum sérsamningum um eftirlaun. Snoða, baða í tjöru og hella úr einum kodda yfir allt saman. Þetta var tíðkað í Frakklandi við ákveðnar persónur í lok stríðsins, þegar mönnum var heitt í hamsi.

Einhver kallaði hann Svavar Student eftir letikastið. Ekki veit ég hvort það er réttnefni, en það er orðið ljóst að á þessum síðustu upplýsingum sem fram hafa komið, að hann reyndi að svindla á þessu prófi. Slapp ekki alveg í gegnum það. Kannski væri réttara að skrifa "d" í Student með spegilskrift og á hvolfi.

Og hana nú!


mbl.is Uppnám á þingi vegna skjala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er kallinn minn að brasa í vinnunni....huh?

Ég og maðurinn minn erum bæði í mjög krefjandi vinnu, með miiiiikla ábyrgð. Vegna mikillar grósku í hinu víðfema fjármálakerfi landsins síðustu ár vorum við hjónin ekki mikið saman nema rétt við matarborðið, og á milli bita skiptumst við á fyrirsögnum, en fórum ekkert út í smáatriði. Svo kom að því að við urðum samferða í rúmið. Ég fór vel að manninum mínum og ætlaði að fá að njóta nokkurra mínútna áður en dauðþreyttur karlinn félli í fjármálamók. Þegar ég fór að láta vel að litlu fjölskyldukúlunum "okkar", hvíslaði kallinn, "farðu varlega kona. Þær eru veðsettar fyrir fimm hundruð milljónir hvor".

En hjúkk, sem betur fer, var kúlulánið fellt niður, þannig að nú eru kúlurnar einskis virði aftur, alveg eins og áður.

Og hana nú. 


Jæja gott fólk......tími til að tengja?

Nú er komið nóg af gráti og gnístran tanna. Hvernig væri að fara að spýta í lófana og fara að gera eitthvað? Við höfum séð það svart áður hér á Íslandi og eigum ugglaust eftir að sjá svoleiðis aftur. Það herti okkur og í raun erum við alveg gallharðir naglar, sem köllum nú ekki all ömmu okkar. Til fjandans með það sem liðið er. Það verður ekki aftur tekið, en vonandi lærum við okkar lexíu á þessu. Þó eitthvað góðærisrugl komi upp, að þá er betra að taka því með varúð. Láta ekki bankaforkólfa og misvitra fjármálasnillinga glepja okkur sýn. Við verðum líka að vera á vaktinni og láta í okkur heyra þegar okkur finst það. Það er í raun handónýtt, að menn skuli ekki þora að tjá sig um það sem manni finnst miður vera að fara. Þetta hefur verið viðloðandi og hálfgerð lenska hér. Það er auðvitað yfirvalda að sjá til þess að einhverjir glópar séu ekki að nota sér aðstöðu sína til þess að ná sér niðri á einstaklingum, þó þeir séu að tjá sig með stórum bókstöfum á dálítið krydduðu máli.

Látum Jóhönnu sjá um þetta og vonandi gengur dæmið upp. Ekki það að ég efist um að svo verði. Það verður bara að sýna sig hvort hún veldur þessu. En það er ekki nóg. Allir okkar ráðamenn verða að koma að málinu, og miðla því sem þeir kunna best. Ekkert skrattans pólitíkusara bull. Látum vaða, og sýnum öllum þeim sem halda eitthvað annað, að við erum full fær um, að takast á við vandamálin.

Áfram nú.


Ekki borga IceSave.....og Ísland einangrast...ha?

Ísland verður á sama stalli í samfélagi þjóðanna og Norður Kórea og Kúba ef Alþingi samþykkir ekki Icesave-samningana segir Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor. Hann segir að stríðsástand gæti skapast í íslensku efnahagslífi, fyrirtæki færu í fjöldagjaldþrot og Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu í heiminum.

>>>

 N-Kórea er ekkert einangruð. Þeir gera bara það sem þeim sýnist. Og þeir nota peningana sína í vopn, í stað þess að kaupa rusl. Land í einangrun hefði ekki bolmagn til þess að smíða kjarnorkuvopn og eldflaugar til þess að bera þau. Hafnbann virkar ekki, því Kína er með opna leið þangað.

Cuba var og er ekki einangruð. Rússar sáu til þess. Og Spánn hefur alla tíð haft samband við þá. Þó þeir hafi ekki getað keypt bílavarahluti frá BNA, þýðir ekki að þeir séu í einangrun.

Kannski er það nú líka bara best fyrir okkur Jónana að við fáum ekki fyrirgreiðslu. Hún er búin að vera okkur dýr fyrirgreiðslan undanfarin ár.

 

og

Þórólfur Mattíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að draga þurfi úr útgjöldum eða hækka skatta til þess að mæta mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

>>> Ja, hvílík viska. Ég hefði aldrei látið mér detta slíka snilld í hug. Ég er alveg dolfallinn, þvílík lausn. Auðvitað þetta er lausnin.

code

Hagfræðiprófessor segir að afborganir af Icesave-láninu setji þjóðarbúið ekki á hliðina. Greiðslurnar jafngildi því að slökkt væri á álverinu á Reyðarfirði og Kárahnúkavirkjun og þau ekki sett í gang aftur fyrr en að 8 árum liðnum. Eftir rúm 7 ár hefjast greiðslur af Icesave-láninu. Lánið er upp á um 650 milljarða króna með vöxtum upp á 5,5%. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands hefur reiknað út hve miklar afborganirnar verða.

Hann gerir ráð fyrir að þegar eignir Landsbankans hafi gengið upp í skuldina standi eftir 10-25% eða 65 til rúmlega 160 milljarðar króna.  Hann segir mikla óvissu vera í útreikningunum og ekki séu allar staðreyndir á borðinu. Hann telji þó að fyrsta greiðslan muni nema 0,5-1,5% af landsframleiðslu það ár.

Hvaða karl er nú þetta? Hvað er hann að gera í háskóla? Mín skoðun er sú, að það sé nú ekki skrítið að Ísland skuli vera á hliðinni með kandídata frá þessari deildinni.

og hana nú.

 


Michael farinn.....í sína síðustu ferð.

Blessaður karlinn. Allt tekur þetta enda einhvertíma. Ég man eftir honum sem litlum amerískum strák af afrísku bergi brotnu, eins og það er kallað. Hann söng I´ll be there, og for beint inn í hjartað á milljónum manna. Til þess að gera langa sögu stutta, varð ég næst fyrir áhrifum þegar hann kom með Billie Jean, og ég fæ enn smá fiðring í lappirnar þegar ég heyri þá musik. Það bara gæti valdið slysi að láta það eftir sér að sprella. En þegar hann dó, var hann allt annar en sá litli. Ég velti því stundum fyrir mér, hvernig svona total umskipti á útliti eins manns gæti gerst. Reyndar á löngu tímabili, en samt. Leyndarmálið fer sennilega með honum í gröfina. En mér finnst þessi sem var að yfirgefa okkur, bara alls ekki sami og sá litli. Kannski var þetta bara alls ekki sami maðurinn. Hver veit það? En honum tókst að verða múltimilli á þessu brölti, og er það bara vel, enda skildi hann ekki eftir sig brunarústir neinstaðar og er því vel liðinn. Reyndar kom hann með mjög grípandi ballöður og eiga örugglega margir íslenskir krakkar honum að þakka tilveru sína. Byrjaði á diskógólfinu með Billie Jean. Alveg frábært. En auðvitað var líka um búmm að ræða, og ekkert kom út úr því, samanber vísuna góðu sem ég man ekkert hver samdi.

Dívaninn er þarfa þing,

Þreyttum værðir gefur,

efni í margan íslending

í hann fallið hefur.

Guð blessi rokk-kónginn.

og hana nú.


mbl.is Michael Jackson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fastur í netinu..........ha?

Nú þykir mér týra. Hannes farinn að biðja sér vægðar. Í upphafi skal endinn skoða. Ég vil minna á að þúsundir, börn, foreldrar afar og ömmur, langafar og langömmur, þurfa að taka út skerðingar á lífsgæðum ásamt niðurlægingu sem af því hlýst, að lenda í algjöru þroti. Svo langar Hannes kallinn til þess að koma því á framfæri að börn og skyldmenni kunni að verða fyrir hnjaski í umræðunni. Tja, nú er ég svo aldeilis hissa. Það er hægt að glenna sig svo mikið að klofbótin fari úr, og þá koma skrítin sköpin í ljós og dingla fyrir allra augum. Þá eru góð ráð fá, og dýr. Ekki hægt að komast hjá því að þeir sem að manni standa verði að athlægi með manni sjálfum.  Þessi tæra snilld sem menn voru að flíka, var jú bara húmbúkk og kjaftæði, og þegar upp er staðið, voru þessir snillingar, bara kjánar. Búnir að koma landi og líð í gapastokk. Svo reikna þeir með því að einhverjir vorkenni þeim, og tali varlega um andskotaganginn. Og svo ætla menn, að það sé einhver vörn í því, að rífa kjaft og tala um ólöglega leit, slæm áhrif á aðstandendur, nornaveiðar, og hver veit hvað. Ég hefði kannski í minni villtustu fantasíu fengið smá vott af samúð, ef einhver af þessum glópum hefði gengið fram fyrir skjöldu, og viðurkennt opinberlega heimsku sína og græðgi með tilheyrandi aðgerðum. T.d. að veita upplýsingar sem ekki eru helber lygi og greiða þannig fyrir lausn á flækjunni. En það er tómt mál að tala um. Þannig að klofbótin er enn rifin og gatið heldur áfram að stækka bæði fram og aftur. Það gæti orðið svakalegt það sem á eftir að koma í ljós þegar buxnastrengurinn fer í sundur.

Persónulega hef ég orðið fyrir tjóni af völdum þessara karla, og áskil mér fullan rétt til þess að fá það tjón bætt. Það væri ekkert of mikið að öll þjóðin tæki sig saman og færi í hópmál við hvern og einn einasta af þessum körlum. Hvor þeir heita Hannes eða Sigurjón, Björgólfur eða Björgólfur Thor, eða Ólafur eða Sigurður, Jón Ásgeir eða Pálmi, eða hvaða sem er. Alla saman. Þeir gætu kannski farið í hópvörn. Hver veit?

Svo langar mig líka að minna Hannes og lögspekinginn hans á það að hér er ekki um nornaveiðar að ræða, eða blóraböggulsleit. Þetta er alveg grafalvarlegt mál, og eins og staðan er í dag, þegar fullveldi Íslands er í húfi, ásamt sjálfstæði íslendinga almennt. Þessir gjörningar sem framkvæmdir voru af glæfrakörlunum, eru þannig vel inni á gráu svæði hvar landráð varðar. Landráð, förulandssvik, eru alverstu og svívirðilegustu glæpir sem hægt er að hugsa sér, og öll fullvalda ríki áskilja sér rétt til þess að beita alhörðustu refsingu sem til er við slíku. Það er ekki viðtekin venja í Noregi að beita slíkri refsingu. En menn hikuðu ekki við Quisling. Hann setti Noreg í verulega hættu með framferði sínu. Markmið hans var að skara eld að eigin köku á kostnað föðurlandsins. En þegar upp var staðið, var hann jú bara glópur, sem skoðaði ekki endinn í upphafi. Það þykir líklega ennþá ekki gott að bera þetta ættarnafn í Noregi.

Og hana nú.

 


mbl.is Meint brot Hannesar Smárasonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðsluverkfall..........og hvað svo?

Nú stendur yfir könnun um þann gjörning að hefja greiðsluverkfall. Þetta þýðir í raun ótímabundin greiðslustöðvun. Auðvelt í framkvæmd. Hætta að borga af lánunum og basta. En hvaða afleiðingar hefur það? Kerfið heldur áfram að vinna, og upp hlaðast allskonar gjöld og sektir. Þeir sem ætla að taka á sig rögg og fara í greiðsluverkfall, eru greinilega tilbúnir að gang út úr samningnum án nokkurra skilyrða um endurgreiðslu á meintri eign þeirra í hinu veðsetta. Semsagt ganga út. Sumir hafa engu að tapa fjárhagslega. Aðrir einhverju, frá því að vera lítið upp í stórfellt tap. Það er í rauninni ekki aðalatriði hversu stórt tapið er í fjármunum, heldur er gjörningurinn aðalatriðið. Þetta hefur ekki verið reynt áður af samtökum, með eitthvað á bak við sig eins og lögfræðiaðstoð í komandi atlögu. Áður voru það bara einstaklingar og fyrirtæki sem hættu að borga af lánum vitandi hvernig það myndi enda. Þetta hefur verið í gangi í mörg ár, og var ein af tekjulindum peningastofnana, hvort sem þar var um að ræða banka, húnæðismálastofnun, eða lífeyrissjóði. Allar þessar stofnanir mökuðu krókinn þannig. Það kæmi mér ekki á óvart, að heildareign landsmanna í fasteignum á landinu hafi farið í gegn um ferlið , þannig að bankarnir hafi náð til sín eignaupptöku a.m.k. einu sinni á hverja eign að meðaltali. Þetta eru einhverjir þúsunda milljarðar í gegnum tíðina. Þar fyrir utan náðu þessar stofnanir sér í fjármuni á ýmsa vegu, allar gróðavænlegar, nema kannski sjálf útlánin, sem áttu jú að vera sá business sem þessar stofnanir voru í. Þau skiluðu vöxtum sem voru alls ekki sú tekjulind sem þessar stofnanir urðu feitar á. Það voru eignaupptökurnar, verðbæturnar, vanskilagjöld, okurdráttarvextir, FIT kostnaður, seðilgjöld og allskonar þjónustugjöld, sem voru tekjulindirnar. Allt saman tekjur af liðum sem voru ekki voru tilgreindar á áætlun. Aðeins mismunur á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum var það sem í hendi var. Og það gaf ekki það í kassann sem eigendur stofnananna gátu sætt sig við. Ávöxtunarkrafa var algengt orð, þegar eitthvert okur atriðið var sett á laggirnar. Ekki svo mikið minnst á ávöxtunarkröfu núna. Þess þarf ekki. Það atriði er sjáfvirkt núna. Núna eru verulega feitir dagar framundan hjá sumum og verða enn feitari þegar fólk fer að sjá aðeins upp úr skuldafeninu, og fer að fjárfesta aftur í eignaupptökunni. Svo byrjar sami hringurinn aftur. Enginn hefur lært neitt nýtt. Sama gryfjan, á sama stað, jafn djúp með jafn háu falli. Ekki einu sinni Asni með gulrót mundi falla í sömu gryfjuna aftur. 

Og hana nú.


mbl.is Ætla að boða greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðilagði íbúðarhúsið.............sitt. Jawoooool.

Þar kom að því að einhver fékk upp í kok af aðgerðum og aðgerðarleysi. Aðgerðum bankanna í að gera stórfelda eignarupptöku á landinu, og aðgerðarleysi valdsins til þess að koma í veg fyrir það. Það getur varla verið meira ábyrgðarleysi að ræna bankann eignum sínum en að vera rændur eignum sínum af bankanum. Það kemur auðvitað hvergi fram í hvaða hlutfalli eignarstaðan var á eigninni þegar  húsið var boðið upp, hvað fékkst fyrir það og hvað fyrri eigandi fékk af því. En af biturri reynslu af svona aðgerð sem uppboðsferli er, segir mér svo hugur, að eignin hafi verið slegin nákvæmlega til lúkingar lánaveði bankans ásamt vöxtum og vaxtavöxtum, innheimtukostnaði, lögmannskostnaði, seðilgjöldum og name it. EÐA lægri upphæð og kemur þá fyrri eigandi til meða að sitja uppi með afganginn af skuldinni, til eilífðar ef bankanum þóknast það. 

Þegar svona gjörningur hefur átt sér stað, og bankinn búinn með stimpli frá sýslumanni, að eignast húsið, kemur fyrri eiganda ekki við hvað svo bankinn fær fyrir eignina síðar. Ef hærra verð fæst en eignin var slegin á, er það gróði til bankans eða umboðsmanna hans. Ekki grænn eyrir rennur til fyrri eiganda til greiðslu á eftirstandandi skuldum ef einhverjar eru. Og ef hann reynir að afla sér upplýsinga um hvað bankinn hafi svo fengið fyrir eignina síðar, kemur hann að lokuðum dyrum. Þó það sér ólöglegt. En bankarnir selja oftast (alltaf) svona eignir í gegnum fasteignasölur, vegna þess að þær geta falið sig á bak við trúnað við viðskiptavini. Svona er nú það.

Nú en þetta var greinilega athafnamaður og lét hann verkin tala með stæl. Þ.e. kvikmyndatöku og áhorfendum. Embættisblókin sem kom svo spásserandi að og hringdi í pólitíið, var alveg orðlaus. Engin furða. Að menn skildu dirfast svona lagað. Nú maðurinn hefur ruglast í rýminu, alveg eins og útrásarvíkingarnir, ríkisstjórnin, fjármálaeftirlitið, seðlabankastjórinn, bankastjórarnir, lögfræðingarnir, endurskoðendurnir og ekki síst forseti lýðveldisins sjálfur. Þeir í sameiningu rústuðu heilu samfélagi í núinu, og um ófyrirséða framtíð. Þannig að þetta er að smita út frá sér. Endar með því að allt þjóðfélagið verður ruglað, og fer í upplausn. Menn fara kannski í það að eyðileggja allt sem tekið hefur verið með valdi, eða útrásarblekkingum. Ég er t.d. alveg hissa á því að útrásarjepparnir fái að vera í friði þar sem þeim hefur verið plantað fyrir utan spilaborgirnar. Sérstaklega vegna þess að blekkigarleikurinn er enn á fullu hjá okkur. Ekkert lát á því atriði, og meira að segja margir af sömu persónum í leiknum. Ég er alveg orðlaus eins og blókin á Álftanesinu.

Viiiiiiiiið veeeeeerðum að staaaanda saaaaaaaaman segja forystusauðirnir með skjáfandi röddu. Auðvitað meina þeir, "Þiiiiiið" því ekki taka þeir þátt í fallítum, skerðingu launa, skerðingu á heilsuþjónustu eða menntun fyrir afkomendurna. Þeir fara bara í bankann sjálfir og slá strikum yfir fallítin sín. Þeir fara bara í einkaþotu til N.Y. í aðgerð, þegar gyllinæðin fer að angra þá verulega. Þeir senda bara króana í Oxford og enginn veit neitt. Mjög þægilegt, enda eru Það allir hinir sem erum VIIIIIIIIÐÐÐÐÐÐÐ.

Og hana nú.


Næsta síða »

Höfundur

Guðjón Emil Arngrímsson
Guðjón Emil Arngrímsson

Nýjustu myndir

  • Ice...
  • AFTUR !!
  • ...age1_870273

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband