26.6.2009 | 06:55
Fastur í netinu..........ha?
Nú þykir mér týra. Hannes farinn að biðja sér vægðar. Í upphafi skal endinn skoða. Ég vil minna á að þúsundir, börn, foreldrar afar og ömmur, langafar og langömmur, þurfa að taka út skerðingar á lífsgæðum ásamt niðurlægingu sem af því hlýst, að lenda í algjöru þroti. Svo langar Hannes kallinn til þess að koma því á framfæri að börn og skyldmenni kunni að verða fyrir hnjaski í umræðunni. Tja, nú er ég svo aldeilis hissa. Það er hægt að glenna sig svo mikið að klofbótin fari úr, og þá koma skrítin sköpin í ljós og dingla fyrir allra augum. Þá eru góð ráð fá, og dýr. Ekki hægt að komast hjá því að þeir sem að manni standa verði að athlægi með manni sjálfum. Þessi tæra snilld sem menn voru að flíka, var jú bara húmbúkk og kjaftæði, og þegar upp er staðið, voru þessir snillingar, bara kjánar. Búnir að koma landi og líð í gapastokk. Svo reikna þeir með því að einhverjir vorkenni þeim, og tali varlega um andskotaganginn. Og svo ætla menn, að það sé einhver vörn í því, að rífa kjaft og tala um ólöglega leit, slæm áhrif á aðstandendur, nornaveiðar, og hver veit hvað. Ég hefði kannski í minni villtustu fantasíu fengið smá vott af samúð, ef einhver af þessum glópum hefði gengið fram fyrir skjöldu, og viðurkennt opinberlega heimsku sína og græðgi með tilheyrandi aðgerðum. T.d. að veita upplýsingar sem ekki eru helber lygi og greiða þannig fyrir lausn á flækjunni. En það er tómt mál að tala um. Þannig að klofbótin er enn rifin og gatið heldur áfram að stækka bæði fram og aftur. Það gæti orðið svakalegt það sem á eftir að koma í ljós þegar buxnastrengurinn fer í sundur.
Persónulega hef ég orðið fyrir tjóni af völdum þessara karla, og áskil mér fullan rétt til þess að fá það tjón bætt. Það væri ekkert of mikið að öll þjóðin tæki sig saman og færi í hópmál við hvern og einn einasta af þessum körlum. Hvor þeir heita Hannes eða Sigurjón, Björgólfur eða Björgólfur Thor, eða Ólafur eða Sigurður, Jón Ásgeir eða Pálmi, eða hvaða sem er. Alla saman. Þeir gætu kannski farið í hópvörn. Hver veit?
Svo langar mig líka að minna Hannes og lögspekinginn hans á það að hér er ekki um nornaveiðar að ræða, eða blóraböggulsleit. Þetta er alveg grafalvarlegt mál, og eins og staðan er í dag, þegar fullveldi Íslands er í húfi, ásamt sjálfstæði íslendinga almennt. Þessir gjörningar sem framkvæmdir voru af glæfrakörlunum, eru þannig vel inni á gráu svæði hvar landráð varðar. Landráð, förulandssvik, eru alverstu og svívirðilegustu glæpir sem hægt er að hugsa sér, og öll fullvalda ríki áskilja sér rétt til þess að beita alhörðustu refsingu sem til er við slíku. Það er ekki viðtekin venja í Noregi að beita slíkri refsingu. En menn hikuðu ekki við Quisling. Hann setti Noreg í verulega hættu með framferði sínu. Markmið hans var að skara eld að eigin köku á kostnað föðurlandsins. En þegar upp var staðið, var hann jú bara glópur, sem skoðaði ekki endinn í upphafi. Það þykir líklega ennþá ekki gott að bera þetta ættarnafn í Noregi.
Og hana nú.
Meint brot Hannesar Smárasonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Eins og alþjóð veit sæta gjörðir þessa manns rannsókn um leið og margra annarra. Ummæli hans í viðtali á RUV stuttu eftir hrun eru mér minnistæð. Þar segst hann í fyrri hluta viðtalsins ekki vera auðmaður en síðar í viðtalinu segist hann ætla að gera allt sem í hans valdi standi til að aðstoða íslensku þjóðina, spurning með hvaða hætti það hefur átt að vera. Ég held stundum að hann sé frekar klaufalegur í orðavali maðurinn.
Anna (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 07:28
Í þessum viðtölum á RUV sór hann sig frá öllu, og kallaði þvælu. Það leyndi sér ekki að hroki var hans aðalsmerki. Það endaði auðvitað sem klaufalegt, þar sem flett var ofan af hans eigin þvælu. Og, nú er hann kominn í vörn. Það er alveg ljóst, að eins og rakið er ofan af þessum köllum, að álagið eykst á þeim og fjölskyldunni. En þannig er þetta, ekki bara hann, heldur allir sem eru nafngreindir á neikvæðum nótum. Glæpamenn af öllum gerðum, ættu að hugsa málið til enda. Bara dálítið snúið fyrir þá sem hafa ekki kontrol á gjörðum sínum vegna ávana af einhverju tagi.
Guðjón Emil Arngrímsson, 26.6.2009 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.