Agnes, blaðamaður fólksins, jahá!

Þegar Agnes skrifar grein um svikamillurnar í bönkunum les ég þær. Hún er fjári beitt, og segir það sem segja þarf. Reyndar er hún undir pressu, þar sem, því miður, að allskonar glæpahyski getur í krafti lagaflækjunnar sem viðgengst hér og í krafti stolins fjármagns farið í dýrar málsóknir. Lögin eru að því að mér skilst hönnuð til þess að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu, þannig að jafnvægi sé. Lögin hafa ekki virkað þannig ef menn komast upp með að stela milljörðum út úr þóðfélaginu án þess að vera sóttir til saka. Á bls. 10 í sunnudagsmogganum skrifar hún grein um hvítþvegnu kórdrengina. Reyndar er hún sniðug og fullyrðir ekki neitt, en spyr í staðinn spurninga. Áleitinna spurninga sem eru í sjálfu sér ekki spurningar, heldur fullyrðingar með spurningamerki. Þessi atriði eiga fullan rétt á sér. Viðkomand menn eru auðvitað stórþjófar og ekkert annað. Þeir hafa meðal annarra komið þjóðinni í striðsástand, bæði innanlands og utan. Það má eiginlega segja að Ísland sé komið í stríð við öll ríkustu ríki Evrópu. Innanlands er hinn almenni borgari kominn í stríð við stjórnvöld. All þetta má rekja til óvandaðra manna sem allir vita hverjir eru.

Í striði gilda kannski önnur lög en svona dags daglega. Einskonar neyðarlög. Þau voru notuð í seinni heimstirjöld hér í Evrópu. Norski stjórmmálamaðurinn sem veðjaði á sigur Þjóðverja var dæmdur eftir slíkum. Ég veit ekki hvort hægt er að komast nær föðurlandssvikum, en þeir menn sem eru búnir að valda þessum ósköpum í okkar litla landi, hafa komist. Í raun ætti að setja hér neyðarlög og skækja þá menn sem bera ábyrgð á örlögum þúsunda íslendinga. Að hneppa alla þjóðina í þrældóm um ófyrirséða framtíð hlítur að teljast svik við föðurlandið í heild. Og það finnst mér Agnes sé að segja, þó án þess að segja það. Hún bara spyr.

Líflátsdómar tíðkast ekki hér á landi lengur. En þó er eflaust að finna einhverja lagabálka viðvíkjandi föðurlandssvikum. Mig minnir að ég hafi einhversstaðar séð slíkt. Nú en það þarf ekki að ganga svo langt. Það ætti að vera nóg að fara að tillögum Agnesar að menn verði gerðir útlægir, og eigi ekki afturkvæmt. Þannig að þeirra bíði rannsókn og réttarhöld þar sem sannleikurinn verði dreginn fram og í framhaldi fái menn réttlátann stimpil á sig. Það er ekkert grín að kalla hryðjuverkalög yfir heila þjóð með þeim aðferðum sem þessir kónar hafa beitt.

Auðvitað eru þessir menn ekki hér lengur. Símaviðtöl frá London heitir það í grein Agnesar. Það væri kannski hægt að benda yfirvöldum í Bretlandi á það, að þeir sem settu fjárhag  fleiri þúsund breskra þegna í uppnám og komu af stað óviðunandi stemmningu milli ríkjanna, séu með aurana í þeirra egin landi og séu að sóa þeim þar ásamt þjófsnautum sínum. Nefnilega, að á sama hátt og þessir menn settu mig og þig og börnin okkar í fjárhagslega ánauð til margra ára eða áratuga, verða börn þessara manna þjófsnautar til jafn langs tíma. Allir þeir sem taka þátt í að þyggja frá þessum mönnum, hvort sem það er lífsviðurværi eða þáttaka í umsvifum, eru þjófsnautar og eru að notast við þýfi. Það gilda ákveðin lög og reglur um slíkt hér á landi.

Það gildir einu hversu menn eru í óða önn að klóra yfir fólskuverkin sín hér, og kórdrengjatal um sakleysi sitt, þá verða þessi atriði hangandi yfir þeim til framtíðar. Þeir höfðu tíma til þess að moka yfir a.m.k. jafn mikinn skít og þann sem enn sést. Sennilega sést mun minna af skítnum þeirra heldur en það sem tókst að grafa niður. En þó skíturinn sé niðurgrafinn, er hann enn til staðar. Það hverfur ekkert algjörlega. Það verður hægt að finna þetta með réttum aðferðum.

Ég hefði ekkert á móti því, að þjóðstjórn tæki hér völdin, og þar með byltingarráð. Fyrrverandi stjórnendur í þjóðfélaginu ynnu að því með nýjum mönnum, að fletta ofan af skítverkunum, og koma böndum á það sem hægt er að koma böndum yfir. Öll lög sem standa í vegi fyrir því, að hægt sé að rannsaka þessi mál niður í kjölinn, með hvaða aðferðum sem duga, ættu að vera sett í salt þar til byltingunni er lokið. Nornaveiðar eða ekki. Nornaveiðar voru notaðar til þess að koma venjulegu fólki á bál ef það setti fram eitthvað atriði sem stangaðist á við hagsmuni kirkjunnar á sínum tima. Það voru engar nornir til, en þetta dugði til þess að hafa ákveðinn hemil á fjöldanum. Það má líka snúa þessu við. Koma þessum gaurum í þannig aðstöðu, að aðrir fari ekki að reyna svona viðbjóð í framtíðinni.

Og hana nú!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðjón Emil Arngrímsson
Guðjón Emil Arngrímsson

Nýjustu myndir

  • Ice...
  • AFTUR !!
  • ...age1_870273

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband