Nú BÓNUS-fáninn, ha?

 

Jæja, svo BÓNUS fáninn er ekki nógu fínn fyrir hið háa alþingi. Þeim herrum sem þarna baða sig ennþá í einhverri óskiljanlegri fantasíu og vellistingum og skeyta engu um það, þótt bæði þeir sjálfir og allir baldintátarnir í fínu fötunum með peningahrúgurnar, hafa niðurlægt þjóðina, alþingi og íslenska fánann þannig, að þess verður minnst lengi. Í dag er íslenski fáninn tákn um sviksemi og flottræfilshátt hjá öðrum þjóðum. Það er varla hægt að flagga íslenska fánanum lengur án þess að fyrirverða sig. Ég persónulega mun ekki flagga því að ég er íslendingur þar sem ég fer um. Ég skammast mín fyrir það í dag. Mest skammast ég mín fyrir að hafa tekið þátt í þessum uppákomum með því að þegja og láta gott heita. En það er ekki auðvelt að segja eitthvað, þegar menn sem þora að koma fram, eru teknir með valdi og stungið inn. Ekki nóg með það. Ég hef heyrt menn halda því fram að eftirleikurinn sé venjulega ofsóknir í formi lokaðra dyra allstaðar þar sem ríður á að sé opið. Svo eru menn líka settir á lista í gagnagrunni, og þar dúsa þeir á meðan sá gagnagrunnur er til. Engu er gleymt, ekkert er fyrirgefið. Nú þessi drengur, Haukur, er góðkunningi lögreglunnar í mótmælageiranum. Sektaður og dæmdur, fyrir að fylgja samvisku sinni, og þúsunda annarra. Honum fannst það tilhlíðilegt að flagga BÓNUS á alþingishúsinu. Ég skil alveg brandarann, og skemmti mér yfir honum. Yfirvöld skildu líka þennan brandara, og einhverjir hafa ugglaust brosað í kampinn, en sá sem valdið hefur, kaus að hlægja ekki, heldur móðgast og gera smá hefndartilfærslur á stráknum. Láta hann sitja inni svolítið, og fikta í buddunni hans og svoleiðis. Bæta aðeins við góðkunningjaskráninguna hans. Þetta heitir á góðri íslensku, að beita einstakling ofbeldi. En á lélegri íslensku. Handtaka vegna meintra lagabrota.

Mér finnst reyndar að BÓNUS hafi gert margfalt meira fyrir fólkið í landinu, en ríkisstjórnin og öll viðhengin hennar. Stjórnarherrarnir hafa hver í kapp við annan, reynt að telja okkur almúganum trú um að öll velmegunin sé þeim sjálfum að þakka. En það voru sko Bónus menn sem lyftu lífskjörunum svo um munaði. Þegar fólk gat farið út í búð og keypt í matinn, og ég meina þá almennilega, þá rýmkaði um restina af laununum, þannig að fólk fór að veita sér annað fyrir það sem heildsalarnir í sjálfstæðiselítunni hirtu og voru hinir einu og sönnu dragbítar á þessum hluta velmegunarinnar. Í kjölfarið komu svo ýmsir sem voru með lágvöruverð á öðrum sviðum. En Bónus á heiðurinn. Þannig í hjarta mínu er Bónus flaggið heiðursflagg þrátt fyrir allt. Fólk ætti bara að fylkja sér utan um það. Ekki spurning.

 

Nú, en stjórnin ætlar að sitja sem fastast. Telur ekki tímabært að boða til kosninga núna. Ég legg þennan þverhausagang þannig út, að menn séu á fullu að breiða yfir klúðrið. Pappírstætarar á fullu og menn að tala sig saman. Þannig er verið að gera allt það sem gæsluvarðhald er annars til þess að koma í veg fyrir. Meira að segja allart spírurnar í bönkunum eru þar ennþá. Hvað ætli þeir séu að gera og hvað á þetta eiginlega að þýða?

 

Ekki má gleyma ráðuneytisstjóranum sem var svo óheppinn, að upp um hann komst. Kannski hefur einhverjum verið illa við hann, og kvakað aðeins til þess að koma þessu af stað.

 

Sagan af Baldri heppna.

Galdur, fyrirgefið, Baldur ráðuneytisstjóri keypti hlutabréf í Landsbankanum. Heppinn.

Baldur átti þá eitthvað um 100 milljónir, enda á góðum launum. Heppinn.

Baldur sat fund með ýmsum þ.m. Darling þar sem L.Í. og staða hans var rædd. Heppinn.

Baldur selur öll hlutabréfin sín í L.Í. meðan staða bankans er sögð góð. Heppinn.

Baldur var búinn að selja hlutabréfin í L.Í. nokkrum dögum áður en bankinn fór á kollinn. Heppinn.

Baldur vissi ekkert um að allt var að fara í kalda kol frekar en hinir. Heppinn.

 

Mikið voðalega er maðurinn heppinn. Ætli hann hafi nokkuð verið heppinn og verið búinn að kaupa evrur fyrir allar millurnar?

 

Maður er nú að velta fyrir sér röksemdarfærslum stjórnmálamannana, að þeir og þessir sem eru í þannig stöðu að spilling í þeirra röðum er möguleg, séu á góðum launum. Góðum launum til þess að minnka líkurnar á að þeir séu að spillast eitthvað fjárhagslega. Þetta lítur út að hafa klikkað verulega þarna. Þessi karl er ugglaust ekki sá eini sem hefur haft það svona. En það komst upp um hann. Fjárans óheppni í allri heppinn rununni. Hann kemur líka ugglaust til með að halda þessu vafasama fé. En hann ætti ekki að fá að halda vinnunni. Og ekki að fá einhver súper eftirlaun heldur. Þannig eru menn látnir axla ábyrgð. Þá hafa þeir valið, annaðhvort fara þeir eftir reglunum og halda sínu á þurru, eða fá pokann ella, og verulega klippt af réttindum sínum. En svo lengi sem ekkert slíkt er í deiglunni, og þeir fá að halda öllu sínu er bara haldið áfram og með smá lygabrölti á að seðja trúgjarnan lýðinn. En er lýðurinn svona trúgjarn. Varla. Baldur verður bara dæmi um ríkisstarfsmann sem var að gera eitthvað sem ekki sæmdi honum. Dæmi um slíkann sem kemst upp með þetta og þarf ekki að taka ábyrgð á því. Svo er það auðvitað spurningin, hverjum er eiginlega treystandi í stjórnunargeiranum? Voru þeir bara ekki allir saman eitthvað að bauka, og eru voða duglegir að laga þetta til svo ekki sjáist.

 

Einn ræðumaðurinn á Austurvelli sagði í dag, að ef stjórnarliðið færi ekki sjálfviljugt út úr stjórnarbyggingunum,  þá yrðu þeir bornir út. He eh. Eiginlega ekki dulbúin hótun. Og meðan kynt er undir katlinum og enginn öryggisventill er til þess að dempa með, þá springur hann fyrir rest. Þá er ekki gott að segja hvort einhverjir verði ekki bornir út. Og það hefur verið hægt um lagana verði á þessum fundum. Viturlegt held ég, það þarf ekki mikið út af að bera til þess að allt fari á versta veg.  Ég veit ekki hvort einhverjir fóru yfir strikið þegar þeir fóru á taugum og sprautuðu pipargasi á fólkið uppi á Hverfisgötu. Hefði sennilega verið skárri kostur að láta strákinn lausan strax. Það var alltaf hægt að klósfesta hann aftur, enda á lista yfir góðkunningja. Ef allt fer á versta veg, dugir sérsveitin ekki. Vonandi fer þetta vel og enginn verði fyrir líftjóni. Því þá verður ekki aftur snúið held ég.

 

Og hana nú.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðjón Emil Arngrímsson
Guðjón Emil Arngrímsson

Nýjustu myndir

  • Ice...
  • AFTUR !!
  • ...age1_870273

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband