Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
15.11.2008 | 18:13
Bíddu nú við! Hver er eiginlega skipstjóri hér?
Í hnotskurn er skip og áhöfn þess einskonar míkro samfélag, þar sem einn ræður og er hann hæðstráðandi, með næstráðanda sér til fulltingis og svo koll af kolli. Sá sem neðst situr í þessum stiga ræður svosem engu nema yfir sjálfum sér, en þarf samt að spila með, eins og allir hinir, til þess að daglegt líf geti gengið.
Í 45 ár var ég að vasast úti á sjó. Á skipum frá 6 metrum á lengd upp í 280 metra, og allt þar á milli. Áhafnirnar voru af öllum þeim gerðum sem Guð nennti að búa til. Maður upplifði allskonar uppákomur, frá andrúmslofti sem gæti fallið undir Eden og í sjóðand Hel, þar sem nánast ríkti uppreisnarástand. En eitt var alltaf á hreinu. Það var bara einn sem réð um borð. Skipstjórinn. Enginn gat sagt honum fyrir verkum. Bara gefið honum ráð, sem hann svo vann úr ef honum hugnaðist.
Markmið siglingar er að ferðast frá stað A til B áfallalaust. Að öðrum kosti eins áfallalítið og mögulegt var. Það eru margir þættir sem verður að líta eftir til þess að þetta geti gerst. Yfiirumsjón með þessum atriðum hefur skipstjórinn. Ef hann hefur ekki yfirsýn yfir þessi atriði er voðinn vís. Alvöru skipstjóri planar alla siglinguna, þar með talinn undirbúninginn, siglinguna sjálfa með daglegum rekstri, og áætlunina um hverning siglingunni skuli hagað. Út af þessari áætlun er ekki brugðið ef allt er normalt. Þar sem allir þættir eru þekktir við slíka siglingu, og rekstur, stenst áætlunin ef rétt er haldið á spilunum. Ýmislegt getur gerst auðvitað. Skyndilega arfavitlaust veður. Bilun í stjórntækjum eða vél. Þetta getur sett strik í reikninginn. En takmarkinu B skal náð. Helst er þá um tímafrávik frá áætlun að ræða. Á siglingunni hafa aðrir yfirmenn skipsins eftirlit með því að áætlun standist. Stýrimennirnir með aðstoð háseta, sjá um að siglingin gangi áfallalaust, gera staðsetningarathugun, leiðrétta stefnuna og fylgjast með að ekki sé fyrirstaða í siglingarleið skipsins. Vélstjórar sjá um að vélar skipsis gangi snurðulaust og að eldsneytisnotkun standist. Matreiðsludeildin sér um að halda mannskapnum gangandi. Skipstjórinn fær reglulega skýrslu um hvernig hefur gengið, hver staðan sé, og hvernig horfur eru um framhaldið. Undirmenn sjá um að koma því í verk sem þarf til þess að skipið sé í eðlilegu viðhaldi, og að vélarnar snúist liðugt. Á meðan allir sjá um sitt, og skipstjórinn láti ekkert fram hjá sér fara, gengur þetta allt eins og ætlast er til.
Alvöru skipstjóri lætur ekkert fram hjá sér fara. Hann fer yfir skýrslugerðina og gerir sínar athuganir til þess að sannreyna að allt sé með felldu.
En á skipum eru líka til slumbertar sem ekki skila sínu verki og láta annaðhvort verkin bitna á öðrum, eða að því er haldið leyndu, og skyndilega er allt í voða. Þannig verða slysin til. Það er undantekningarlaust hinn mannlegi þáttur sem ræður því hvernig fer. Skip sem ferst í vondu veðri hefur ekki verið sjóhæft við þær aðstæður. Skip sem ekki er sjóhæft fer því hreinlega ekki úr höfn. Annars helst skipið á floti ef viðeigandi ráðstafanir eru gerðar þegar von er á áföllum.
Til eru líka annarskonar karakterar, sem eru sífellt að skara eld að eigin köku. Það bitnar líka á skipi og skipshöfn. Getur leitt til alsherjar tjóns í versta tilfelli.
Þannig að ef allt sem tilheyrir skipinu og öryggi þess er í lagi, þá mun siglingin ganga vel og áfallalaust.
En það er bara algjört must, að það sé bara einn skipstjóri um borð sem ræður, tekur ákvarðanir, og restin af liðinu fer eftir því sem hann ákveður að sé gert. Ef það væri betra að hafa tvo skipstjóra, þá væri það haft þannig. En svoleiðis er það bara ekki.
Það er þó einn aðili sem getur sagt skipstjóranum fyrir verkum. Það er útgerðamaðurinn. Það hefur gerst að útgerðamaður hafi þurft að grípa inní, en það er afar sjaldgæft.
Við getum hermt skipið með öllu upp á þjóðfélag eins og okkar. Ákveðinn skipstjóra og rétt handtök er það sem til þarf.
En, hver er eiginlega skipstjóri á okkar skútu? Og hver er útgerðarmaðurinn? Það er nokkuð ljóst, að okkr þjóðarskútu hefur ekki verið stjórnað sómasamlega. Skipið er í rauninni flak og er á leiðinni að farast. Þetta ástand er vegna þess að yfirmenn skipsins hafa ekki stjórnað því samkvæmt almennum reglum sem gilda um slíka siglingu. Skipstjórinn hefur látið undirmenn sína taka sjálfstæðar ákvarðanir sitt í hverju horni þannig að samræming í siglingunni hefur engin verið. Banka starfseminni má líkja við stóra borgarísjaka sem voru komnir inn á siglingaleið skipsins og enginn gerði neitt til þess að taka mið af því. Á Titanic voru skipstjórinn og hans helstu aðstoðarmenn, hópur selskaps flottræfla, sem tóku sér það hlutverk að halda farþegunum sem voru í hæðsta klassa við efnið. Sigling skipsins var í höndum manna sem ekki kunnu almennilega til verka. Allt sem aflaga gat farið, fór þannig. Þennan frægasta harmleik sögunnar þekkja flestir sem komnir eru til vits og ára. Okkar þjóðarskútu-sigling er í samræmi við þetta atriði. Skipstjórinn for niður með Titanic. Ég hefði líka látið mig hafa það í hans sporum. Hann vissi að hann hafði ekki staðið sig, og hundruðir manna voru við dauðans dyr vegna lélegrar stjórnar hans. Það hefði ekki verið álitlegt fyrir hann að standa fyrir sjódómi með þetta á bakinu. Þegar upp var staðið var ábyrðin alfarið hans. Hann varð að taka ákvörðun um það á staðnum, hvort hann vildi reyna að bjargast og þurfa að standa fyrir máli sínu, eða deyja. Seinni kosturinn var auðveldari fyrir hann. En þar með fóru upplýsingar sem hefðu að hluta til leitt í ljós raunverulegar aðstæður, og ástæður fyrir þessu slysi. En það að vera svona upptekinn af glarmúr og high life, er ekki í þágu þeirra tugþúsunda sem nú eru að berjast fyrir fjárhagslegu lífi sínu. Sumir munu missa allt sitt og þar með æfistarfið. Aðrir verða fyrir minna tjóni. En það má ekki gleyma því, að það eru líka margir sem sjá ekki ástæðu til þess að halda áfram af ýmsum ástæðum. Þeir munu taka líf sitt. En fáir eða engir munu fá að vita um það. Þær tölur verða aldrei birtar.
Og hana nú.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2008 | 02:11
Glitnir, eða kannski Glettnir.
Á forsíðu DV þann 31. oktober 2008, eru athyglisverðar fyrirsagnir.
Aðal fyrirsögn: "FLÓTTI BJARNA". Ha? Flúði maðurinn. Hvað var hann að flýja? Ég veit það svosem, en samt.
2. "BJARNI ÁRMANNSSON SLAPP MEÐ MILLJARÐA TIL NOREGS". Slapp frá hverju? Voru einhverjir að ofsækja hann? Kanski með millurnar og skrekkinn. Eða var bara farið að hitna einhversstaðar?
3. "SVEITASTRÁKURINN SEM VARÐ AUÐKÝFINGUR". Götustrákurinn sem varð......... nokkuð líkt.
4. "HEILLAÐI PÉTUR BLÖNDAL Í TAÍLANDI". Ekki kemur þetta á óvart. En kannski var þetta ekki alveg þannig. Kannski var þetta öfugt. Hver veit það?
5. "SELDI FYRIR SJÖ MILLJARÐA Í GLITNI". Hver skenkti þessum manni sjö þúsund milljónir í Glitni? Hverjir skrifuðu undir þessa pappíra? Ég er nú ekki alveg að gleypa þetta hrátt. Til þess að fá greiddar 7.000.000.000 krónur fyrir eitthvað verk, þá þarf það verk að skilja eftir eitthvað annað en skuldir.
6. "HLJÓP FRÁ KREPPUNNI". Þetta lýsir sér nú sjálft vilja menn segja. En er þetta svona einfalt?
7. "HEFÐI GRÆTT HÁLFAN MILLJARÐ Á REI" Hvað var í gangi hérna. Hvað var maðurinn að vasast og í hvers umboði. Varla normalt.
8. "VARKÁR OG BÍÐUR FÆRIS". Ha? Bíður færis á hverju? Ég ætla rétt að vona, að þessi skúrkur fari ekki að láta sjá sig hér með blóðpeningana sína, nema til þess að skila þeim. Hann má bíða færis á að gogga til sín nokkra tugi milljaraða úr olíuauði norðvegs víkinga ef hann getur. Varla láta þeir hann gabba sig eins og aularnir hérna heima.
Inni í blaðinu er hann kallaður Refur í viðskiptum. Refur er vægara orðið yfir Varg. Allavega hefur rebbi verið skilgreindur sem slíkur frá því að menn fóru að rækta hér fé, bæði fiðrað og ófiðrað. Reyndar er honum lýst sem skúrk, sem ekki er hægt að treysta á, því þú veist ekkert um næstu vendingar hans, nema þú vitir hvar aura er von.
Ekki finst mér maðurinn fái háa einkun fyrir móral og heiðarleika í þessu blaði. Ég veit ekkert um það hvort ég er sammála því. Ég held að þetta sé ekki alveg svona. Þetta er bara það sem sést.
Til sjós er borgarís talinn afar hættulegur. Ekki komandi nálægt honum. Ég held að Bjarni sé bara toppurinn á klakanum. Að hann hafi verið notaður til þess að dekka eitthvað annað. Það sem er niðri í sjónum og sést ekki. Þessvegna er hann ekki tiltækur. Þessvegna er hann langt í burtu, þar sem menn eru á glápa á það sem hann er að bardúsa, á meðan hitt er að bráðna í burtu og mást út. Ég trúi því aldrei, að hann hafi fengið sitt fé fyrir það sem hann innvann fyrir fyrirtækið. Þetta eru annarskonar peningar. Eru einhverjir hér með bein í nefinu til þess að finna út úr því? Kannski, en þeir eru varla tiltækir. Enda, hver á að borga fyrir þá vinnu? Sennilega þeir sem eru undir yfirborðinu. En hvernig sem það nú er, þá mundi ég ekki vilja þetta kerti hingað til þess að athafna sig. Fyrir einhverju síðan meðan allt átti að vera í fínu, en vitneskjan um peningasóparalaun hans voru öllum kunn, stóð hann fyrir framan mig í röð við kassann í 11-11 og ég varð að taka á honum risastóra mínum til þess að missa ekki löppina í afturendan á honum. Það var nefnilega auðsætt þá hvað var í gangi. Bara enginn vildi segja það. Í dag mundi ég bara láta hann stóra minn sjá um það. Svo innilega litla samúð hef með þessum gaur, að frekar mundi ég beygja mig til þess að bjarga ánamaðk af regnvotri göu, (sem ég reyndar geri oft) heldur en að ljá honum eyra nokkurn tíma.
Og hana nú.
14.11.2008 | 18:03
Afsakið mig!
Æ, fyrirgefið. Ég var ekki að segja brandara. Það fóru bara allir að hlæja óvart. Þetta var ekkert fyndið. Ja hér og hérna. En auðvitað getur maður í þessari stöðu ekki verið að flyrta með grafalvarlegt mál eins og þetta. Það er bara of seint að grípa fyrir langrifuna, þegar kúkurinn er kominn í buxurnar. En hvað svo sem því líður, þá hefur bara ekkert verið kannað um hamingjuástand íslendinga síðan allir voru súperhappy. Ég er ekkert hamingju- eða óhamingjusamari en ég var þá. Þannig held ég að sé með flesta þá sem ekki byggðu hamingju sína á fjámálafífldirfsku. Peningar eru ekki allt í þessu lífi. Þeir eru í hæsta lagi í þriðja sæti.
Til sjós er lífið um borð í skipi svona einskonar microsamfélag. Þar er hæðstráðandi, og svo næstráðandi og svo koll af kolli. Lægst setti ræður svosem engu, en hann þarf samt að spila með svo samfélagið virki eins og ætlast er til. Markmiðið er að sigla frá A til B áfallalaust, eða a.m.k. eins áfallalítið og kostur er. En til þess að það geti gerst, að þá þarf að vera skipstjóri, sem er skipstjóri og ekkert mehe með það. Sá hinn sami ræður. Aðrir taka ákvarðanir um hinar ýmsu gjörðir um borð eins og þeir áætla að skipstjórinn mundi gera, ef hann er ekki viðlátinn. Maðurinn þarf að sofa líka. En um leið og þess er kostur gefur vakthafandi honum skýrslu um ástandið. Hvað hefur verið gert. Hver staðan er nú, og áætlun um framhaldið. Kallinn fer yfir málið. Undir normal aðstæðum sér hann í hendi sér hvort allt er í lagi. Það er ekki í lagi ef hann sér ekki hvort vankantar eru á skýrslunni. Alvöru skipstjórar kolla allt sem gert er. Aðeins þannig getur hann haft stjórn á skútunni. Ekki gengur heldur að tveir ráði. Ef það gengi vel eða jafnvel betur en að hafa einn, þá væru tveir skipstjórar á hverju skipi. En þannig er það bara ekki.- Ef þannig vill til, að skipið verði fyrir áföllum af einhverju tagi, þannig að hætta er á total tjóni, þá er strax byrjað að vinna að því, að bjarga skipinu. Öll tiltæk ráð eru notuð. Menn bíða ekki eftir því að ástandið lagist af sjálfu sér. Send eru út neyðarköll, fyrst PAN svona til þess að gera öllum sem heyra til, grein fyrir því að hætta gæti verið á ferðum. Þá fara aðrir að hlusta og eru ekki að blaðra á rásinni á meðan. Ef ástandið versnar og útlit er fyrir að skipið ætli ekki að hafa það af, er sent út alvarlegt neiðarkall, MAYDAY, (SOS), sem þýðir að allt stefni í voða. Menn gera sig klára til þess að bjargast. En það yfirgefur enginn skipið fyrr en skipstjórinn gefur grænt ljós á það. Bara rotturnar stinga af. En meðan vært er um borð er best að vera þar. Ef menn yfirgefa skipið, þá fer skipsjórinn síðastur frá borði, eða alls ekki frá borði. Oft hefur hann farið niður með skipi sínu. Það eru þeir huguðustu sem það gera. Aðal ástæðan fyrir því, að skipstjórinn fer ekki frá borði fyrr en í fulla hnefana, er sú, að mannlaust skip á floti er í raun eign þess sem fer um borð. Þannig að ef skipstjórinn fer of snemma og skipið ferst ekki, þá getur sá sem fyrstur kæmist um borð, talist réttmætur eigandi þess og farms. Hvort sem skipið bjargast eða ekki, eru haldin sjópróf. Menn vilja sjá hvað gerðist. (Fynna blóraböggul er það kallað þegar það er gert við hvítflybba glæpaspírur). Skipstjórinn situr alltaf uppi með eihverja ábyrgð, sama hvað gerist. Hann hefði átt að sjá þetta fyrir. Svona er þetta í hnotskurn. Nú er spurningin:"Hver er skipstjóinn á okkar skútu?" Samkvæmt minni skilgreiningu hlýtur það að vera forsætisráðherra. Hinir ráðherrarnir eru stýrimenn hjá honum. Þeir eiga að gefa skýrslu til hans um ástandið. Driffjöður skútunnar er þá atvinnulífið og fjármagnið er eldsneytið. Það gengi varla að vélstjórinn væri að skrúfa fyrir eldsneytislokana á víxl eftir því hvort honum finnist að skipið eigi að hafa afl eða ekki. Það er skipstjórinn sem ræður því. Auðvitað hafa skipstjórinn og vélstjórinn samráð um keyrlsu vélarinnar, því það er í verkahring vélstjórans að meta það hvað vélin þolir að vera keyrð. En það gerist ekki að vélstjórinn keyri vélina alfarið eftir eigin höfði, og tilkynni svo kallinum eftir á hvað var verið að gera í pyttinum. En svona hefur nú þjóðarskútunni verið siglt að undanförnu. Og aðgerðirnar sem menn eru í, eru alveg út í sjóndeildarhring, og hafa lítið með skútuna að gera. Það er varla litið eftir rottunum sem nöguðu gat á skútuna, og fóru með stóran hluta eldsneytisins með sér, olían lak út um götin, og restin er í dunkum sem rotturnar sitja á og róa lífróður til þess að koma því undan. Það besta var, að enginn vissi að þetta voru rottur. Héldu að þetta væru hænur að verpa gulleggjum..... Kanski átti skipstjórinn að lesa líffræðina sína betur. Hænur eru fuglar en rottur nagdýr. Furðulegt að átta sig ekki á þessu, sérstaklega þegar ein aðal rottan var þekkt. Hún var nefnilega búin að naga göt áður.- Það er þó einn aðlili sem getur sagt skipstjóranum fyrir verkum til sjós. Það er útgerðarmaðurinn, eigandi skipsins. (Nema útgerðarmaðurinn, eigandinn og skipstjórinn séu einn og hinn sami). Nú er það stóra spurningin. Hver er útgerðarmaðurinn? Það hlítur að vera almenningur í landinu. Svona eins og hluthafar. Og hver fer með umboð hluthafa? Er það forsetinn? Það er allavega ekki skipstjórinn, eða vélstjórinn. Hver getur tekið völdin af skipstjóranum og þar með áhöfninni, ef þeir eru að stefna skipinu í strand fyrir allra augum? Að mínu mati lítur helst út fyrir að skipstjórinn og elítan í kringum hann ætli að hunsa útgerðarmanninn komplet. Þetta þykir nú ekki góð lenska.
Hingað til hefur skipstjórinn verið ráðinn eftir útlitinu einu saman. Kunnáttan hefur verið látin liggja á milli hluta. Það er ekki einu sinni athugað hvort maðurinnn kann siglingarfræði. Hann hefur bara horft á hvernig forverinn hefur gert og apap það svo eftir. Reyndar líkjast þessir hottentátar helst selskaps-liðinu sem stjórnaði Titanic og allir sem vilja vita það, vita hvernig það fór. Selskapurinn hélt áfram þar til dallurinn stóð upp á endann, og enginn hafði stjórn á neinu þar. Harmleikur sem enginn vildi taka þátt í, en........
Og hana nú.
14.11.2008 | 00:05
Skríll hvað?
Það getur verið að það séu skrílslæti, að kasta eggjum í Þinghúsið. En saklaus eru þau nú samt.
En hvað gæti það nú kallast að kasta 35.000.000 krónu skuld yfir hvert einasta mannsbarn á Íslandi?
Löggjafinn hefur nú ekki verið að sitja auðum höndum, þegar almenningur er að mótmæla. En sá hinn sami löggjafi sat auðum höndum þegar örfáir bófar stálu öllu sparifé landsmanna. Það er ekkert eftir þar sem +/- uppgjör á fjárhag landsins er - 35,000.000 x 300,000. = -10,500,000,000,000. Kannski er einhver annar sem hefur betri skil á þessu. Þetta eru sennilega fleiri krónur, en störnurnar sem við sjáum berum augum á heiðskíru vetrarkvöldi.
Hvar eru mennirnir sem gerðu þetta? Hvað eru þeir að gera? Hver ætlar að koma böndum á þá?
Það var hlegið að óhamingju íslendinga á Möltu. He he. Sá hlær best sem síðast hlær. Viðbrögð nágranna okkar og þessara geðhjúkrunarfræðinga segir nú ýmislegt. Þetta fólk hefur öfundað okkur óumræðanlega á tímum velmegunarinnar hér, og kannski ekkert skrítið, því það eiginlega botnaði ekkert í þessu öllu. Nú þykir þeim tími til þess að fá útrás fyrir öfundina og breyta henni í niðurlægingu. Gott hjá þeim. Verði þeim að góðu.
Ég var einu sinni að vinna á Kleppi. Í byrjun var ég í hreinum vandræðum, því ég gat ekki séð mismuninn á starfsmönnum og vistmönnum. Þetta kom mér mjög ílla að endingu. Það gerðust margir spaugilegir hlutir þar, sem renna stoðum undir það, að lítill munur er á Jóni og Séra Jóni.
Nú en menn þurfa semsagt ekki að taka þetta nærri sér. Mismunurinn á geðhjúkrunarfóki (ekki neitt persónulegt) og sjúklingum þeirra er minni en það heldur. Lítill sjáanlegur munur er, og mismunurinn á virkni heilabúsins er ekki mælanlegur, enda um mícro mismun að ræða. Enn merkilegri er sá þáttur, að þau vita næstum ekkert um orsakir krankleikans. Eina sem sagt er að vitað sé, að boðefnin séu í einhverju hringli. Kannski boðefnin hafi hringlast eitthvað á þessari ráðstefnu? Hver veit. Vill einhver raflost?
Þjóðverjinn sem hingað er kominn til þess að spyrjast fyrir um peningana sína.... Tja, nú er þörf. Ég er ekki í skapi til þess að grínast með hans vandamál. Og það er engin afsökun að ég hafi tapað mun meira fé, því þessar 140 millur sem við fjölskyldan skuldum allt í einu upp úr þurru er dálítið hressilegri útfærsla á tapi. Auðvitað fyrir utan beint tap, sem ég er ekki búinn að gera upp ennþá. Miðað við eignastöðu fyrir og eftir fall, er það nú samt talsvert. Ef þessi Þjóðverji fær nú aurana sína aftur handa börnunum sínum, hver mun þá borga það. Jú, börnin mín. En ég geri ráð fyrir að það sé honum nú alveg sama um.
Ég trúi nú á Guð almáttugan og hef gert lengi. Eða síðan ég var kominn í sálarþrot, og fékk stuðning frá honum. Allavega var það enginn mannlegur sem studdi mig þar. Hann mun líka leiða okkur öll út úr þessu. Hann hefur sennilega sett undirheima í vinnu, við að grafa tunnel frá olíusvæðunum í Norðurjó upp að austurlandi, og er búinn að hleypa öllu svartagullinu yfir til okkar.. he he. En áður en við byrjum á þessu dæmi, var rétt að leyfa okkur að kynnast því hvað gerist, þegar móralslausir krimmar, bullyar og rússnesk dannaðar peningasugur (sombies) komast í sjóði landsmanna. Látum nú þetta okkur að kenningu verða. Þetta hefur gerst áður. Kannski í jafn stórum mælikvarða. Við vitum það bara ekki.
Góðir landsmenn. Munið þetta. Í dag vorkennir okkur enginn, nema Færeyjingar. Þeir þekkja þetta af egin raun. Það hlakkar í öllum öðrum. Ég heyrði í viðtali við forsetann held ég, og fleirum, "Bretland sem hefur verið okkar vinaþjóð til margra ára". Ojæja. Bretland hefur aldrei verið vinaþjóð neinna nema Bretlands. Þeir hafa haft óhemju fé af opíumsölu, þrælahaldi, harðlínupólitík gegn fátækum í sínu eigin landi. You just name it. Í Bretlandi lifa tvær þjóðir. Sú mannfærri (The Lion and its tail) og svo hin mannfleiri (The shield). Ég gef nú frat í Ljónið, enda grálúsugt. Allskonar snýkjudýr lafa utan á því. Það er því í raun veikburða. Enda hefur Ameríski Skallaörninn reddað því oftar en tali tekur. Reyndar hefur íslenska fjóreykið líka reddað því oftar en ekki. Við vorum jú vinir þeirra þegar við gátum lánað þeim ósökkvandi flugmóðuskip og fisk í trantinn. Við erum nú ekki búnir að gleyma þessum reddingum þegar Þýski Örninn var að klóra í afturendann á Ljóninu. Við vorum líka vinir þeirra þegar þá vantaði uppáskrift upp á slátrunarleyfið á Írak. En það dugir nú skammt. Það er rétt að muna þetta næst þegar þeir lenda í súpunni. Þeir geta bara étið hana sjálfir.
Og hana nú.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar