Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
23.11.2008 | 02:13
Nú BÓNUS-fáninn, ha?
Jæja, svo BÓNUS fáninn er ekki nógu fínn fyrir hið háa alþingi. Þeim herrum sem þarna baða sig ennþá í einhverri óskiljanlegri fantasíu og vellistingum og skeyta engu um það, þótt bæði þeir sjálfir og allir baldintátarnir í fínu fötunum með peningahrúgurnar, hafa niðurlægt þjóðina, alþingi og íslenska fánann þannig, að þess verður minnst lengi. Í dag er íslenski fáninn tákn um sviksemi og flottræfilshátt hjá öðrum þjóðum. Það er varla hægt að flagga íslenska fánanum lengur án þess að fyrirverða sig. Ég persónulega mun ekki flagga því að ég er íslendingur þar sem ég fer um. Ég skammast mín fyrir það í dag. Mest skammast ég mín fyrir að hafa tekið þátt í þessum uppákomum með því að þegja og láta gott heita. En það er ekki auðvelt að segja eitthvað, þegar menn sem þora að koma fram, eru teknir með valdi og stungið inn. Ekki nóg með það. Ég hef heyrt menn halda því fram að eftirleikurinn sé venjulega ofsóknir í formi lokaðra dyra allstaðar þar sem ríður á að sé opið. Svo eru menn líka settir á lista í gagnagrunni, og þar dúsa þeir á meðan sá gagnagrunnur er til. Engu er gleymt, ekkert er fyrirgefið. Nú þessi drengur, Haukur, er góðkunningi lögreglunnar í mótmælageiranum. Sektaður og dæmdur, fyrir að fylgja samvisku sinni, og þúsunda annarra. Honum fannst það tilhlíðilegt að flagga BÓNUS á alþingishúsinu. Ég skil alveg brandarann, og skemmti mér yfir honum. Yfirvöld skildu líka þennan brandara, og einhverjir hafa ugglaust brosað í kampinn, en sá sem valdið hefur, kaus að hlægja ekki, heldur móðgast og gera smá hefndartilfærslur á stráknum. Láta hann sitja inni svolítið, og fikta í buddunni hans og svoleiðis. Bæta aðeins við góðkunningjaskráninguna hans. Þetta heitir á góðri íslensku, að beita einstakling ofbeldi. En á lélegri íslensku. Handtaka vegna meintra lagabrota.
Mér finnst reyndar að BÓNUS hafi gert margfalt meira fyrir fólkið í landinu, en ríkisstjórnin og öll viðhengin hennar. Stjórnarherrarnir hafa hver í kapp við annan, reynt að telja okkur almúganum trú um að öll velmegunin sé þeim sjálfum að þakka. En það voru sko Bónus menn sem lyftu lífskjörunum svo um munaði. Þegar fólk gat farið út í búð og keypt í matinn, og ég meina þá almennilega, þá rýmkaði um restina af laununum, þannig að fólk fór að veita sér annað fyrir það sem heildsalarnir í sjálfstæðiselítunni hirtu og voru hinir einu og sönnu dragbítar á þessum hluta velmegunarinnar. Í kjölfarið komu svo ýmsir sem voru með lágvöruverð á öðrum sviðum. En Bónus á heiðurinn. Þannig í hjarta mínu er Bónus flaggið heiðursflagg þrátt fyrir allt. Fólk ætti bara að fylkja sér utan um það. Ekki spurning.
Nú, en stjórnin ætlar að sitja sem fastast. Telur ekki tímabært að boða til kosninga núna. Ég legg þennan þverhausagang þannig út, að menn séu á fullu að breiða yfir klúðrið. Pappírstætarar á fullu og menn að tala sig saman. Þannig er verið að gera allt það sem gæsluvarðhald er annars til þess að koma í veg fyrir. Meira að segja allart spírurnar í bönkunum eru þar ennþá. Hvað ætli þeir séu að gera og hvað á þetta eiginlega að þýða?
Ekki má gleyma ráðuneytisstjóranum sem var svo óheppinn, að upp um hann komst. Kannski hefur einhverjum verið illa við hann, og kvakað aðeins til þess að koma þessu af stað.
Sagan af Baldri heppna.
Galdur, fyrirgefið, Baldur ráðuneytisstjóri keypti hlutabréf í Landsbankanum. Heppinn.
Baldur átti þá eitthvað um 100 milljónir, enda á góðum launum. Heppinn.
Baldur sat fund með ýmsum þ.m. Darling þar sem L.Í. og staða hans var rædd. Heppinn.
Baldur selur öll hlutabréfin sín í L.Í. meðan staða bankans er sögð góð. Heppinn.
Baldur var búinn að selja hlutabréfin í L.Í. nokkrum dögum áður en bankinn fór á kollinn. Heppinn.
Baldur vissi ekkert um að allt var að fara í kalda kol frekar en hinir. Heppinn.
Mikið voðalega er maðurinn heppinn. Ætli hann hafi nokkuð verið heppinn og verið búinn að kaupa evrur fyrir allar millurnar?
Maður er nú að velta fyrir sér röksemdarfærslum stjórnmálamannana, að þeir og þessir sem eru í þannig stöðu að spilling í þeirra röðum er möguleg, séu á góðum launum. Góðum launum til þess að minnka líkurnar á að þeir séu að spillast eitthvað fjárhagslega. Þetta lítur út að hafa klikkað verulega þarna. Þessi karl er ugglaust ekki sá eini sem hefur haft það svona. En það komst upp um hann. Fjárans óheppni í allri heppinn rununni. Hann kemur líka ugglaust til með að halda þessu vafasama fé. En hann ætti ekki að fá að halda vinnunni. Og ekki að fá einhver súper eftirlaun heldur. Þannig eru menn látnir axla ábyrgð. Þá hafa þeir valið, annaðhvort fara þeir eftir reglunum og halda sínu á þurru, eða fá pokann ella, og verulega klippt af réttindum sínum. En svo lengi sem ekkert slíkt er í deiglunni, og þeir fá að halda öllu sínu er bara haldið áfram og með smá lygabrölti á að seðja trúgjarnan lýðinn. En er lýðurinn svona trúgjarn. Varla. Baldur verður bara dæmi um ríkisstarfsmann sem var að gera eitthvað sem ekki sæmdi honum. Dæmi um slíkann sem kemst upp með þetta og þarf ekki að taka ábyrgð á því. Svo er það auðvitað spurningin, hverjum er eiginlega treystandi í stjórnunargeiranum? Voru þeir bara ekki allir saman eitthvað að bauka, og eru voða duglegir að laga þetta til svo ekki sjáist.
Einn ræðumaðurinn á Austurvelli sagði í dag, að ef stjórnarliðið færi ekki sjálfviljugt út úr stjórnarbyggingunum, þá yrðu þeir bornir út. He eh. Eiginlega ekki dulbúin hótun. Og meðan kynt er undir katlinum og enginn öryggisventill er til þess að dempa með, þá springur hann fyrir rest. Þá er ekki gott að segja hvort einhverjir verði ekki bornir út. Og það hefur verið hægt um lagana verði á þessum fundum. Viturlegt held ég, það þarf ekki mikið út af að bera til þess að allt fari á versta veg. Ég veit ekki hvort einhverjir fóru yfir strikið þegar þeir fóru á taugum og sprautuðu pipargasi á fólkið uppi á Hverfisgötu. Hefði sennilega verið skárri kostur að láta strákinn lausan strax. Það var alltaf hægt að klósfesta hann aftur, enda á lista yfir góðkunningja. Ef allt fer á versta veg, dugir sérsveitin ekki. Vonandi fer þetta vel og enginn verði fyrir líftjóni. Því þá verður ekki aftur snúið held ég.
Og hana nú.
20.11.2008 | 19:47
Icesave, Icesave! Ha?
Í DV 27. oktober 2008.
Björgólfur Guðmundsson segir frá því, að kaupæðið sem rann á íslendinga hafi valdið því að allt frjámála kerfi landsins hrundi. Well, kannski. Ég var svo djarfur að kaupa mér jeppa, á 150,000 og flatskjá á 80,000. Staðgreiddi þetta reyndar. En ég skal taka á mig sökina. Ekki málið. Verst að það skildi verða hundruð milljarða tjón af þessu. Við hefðum sloppið fyrir horn ef ég hefði sleppt jeppanum. Nú skuldin á jeppanum er þá í kringum 1500, milljarðar, og skárinn hefur þá sennilega fallið um 800 milljarða. Þá skulda ég í þessum fjárfestingum um 2300 milljarða. En ég lagði ekkert inn á Icesave, þannig að ég skulda þá sennilega ekki mjög mikið þar. Kannski svona 500 milljarða. En þegar ég borgaði þessa hluti, var mér ekki ljóst hve miklir fjármunir voru í húfi. Vissi hreinlega ekki að ég var marga, marga mínus milljarða í höndunum. Ótrúlegt hvað maður getur verið blindur á stundum. Eins gott að ég vann ekki 36 milljónir í Lottó. Það hefði farið með fjárhaginn endanlega.
Hvað ætli hafi orðið af aurunum sem fólkið í Bretaníu lagði inn, úr því að nú á það eins og ég, bara mínus tölur í bankanum? BG segir að enginn tali um eignirnar sem komi á móti. Ég hélt að þær hefðu brunnið upp. Reyndar get ég ekki alveg skilið þetta dæmi. Ef ég kaupi kofa á 100 kall, og hann er metinn á hundrað kall, að þá breytir engu þó ég fari á hausinn. Kofinn heldur sínu mati, nema auðvitað ef fólk veit að ég fór á hausinn, að þá fellur matið á honum í núll og hægt að fá hann gefins. Eða hvað? Allavega var einhver hellingur af eignum sem LÍ átti í Bretaníu sem féllu um marga marga milljarða vegna þess að ríkið hirti LÍ. Kannski var þetta bara kofi sem var metinn á 1000 milljarða af því að LÍ átti hann, en var í raun bara núll virði þegar NLÍ eignaðist hann. Eða hvernig er þetta eiginlega. Eru eignir verðmetnar eftir því hver á þær. Ég hélt að matið væri tengt allt öðru lögmáli. Þegar ég ætla að kaupa eitthvað, þá met ég það voða lágt. En þegar ég ætla að selja, þá met ég það voða hátt. Málið er bara að það tekur enginn mark á því nema ég. Því kaupi ég aldrei neitt, því það er alltof dýrt, og sel aldrei neitt, því ég fæ ekki nóg fyrir það. Lögmálin hjá útrásarvíkingunum voru allt öðru vísi, Einn keypti eitthvað sem var á hausnum voða dýrt. Síðan fann hann annan útrásarvíking sem keypti þetta eitthvað á helmingi meira og fannst það bara skrambi ódýrt. En varð samt að fara í bankann hjá þeim fyrsta og slá lán til fjármögnunar. Síðan þurfti að finna þriðja víkinginn til þess að kaupa þetta eitthvað einu sinni enn, og þá helmingi dýrara en síðast. Þar sem fyrsti víkingurinn vissi að þetta eitthvað var orðið voða verðmætt frá því að hann keypti það fyrst, þá bauð hann þriðja víking að kaupa það, og notaði innlán múgsins til þess að dekka kaupin. Milljarðarnir skiptu um hendur en þetta eitthvað var enn á hausnum og var eiginlega búið að kosta allann ágóðann í tap, sem var þó ekki búið að borga. Þeir aurar voru í geymslu í víkingabúðunum, og voru tilbúnir til þess að nota þá seinna. Þetta eitthvað var nú orðið voða mikið vermæti, en skuldaði einhver reiðinnar bísn, og þar lá verðmætið. Æ ég er eiginlega ekki að skilja þetta, þó svo að ég sé að skrifa þetta sjálfur. Alveg eins og víkingarnir botna ekkert í því hvernig við gátum eytt svona miklum aurum í Jeppa, hjólhýsi og flatskjái. Gjörsamlega óskiljanlegt, og með þessari óráðsíu, eyðilagðist Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing á einu bretti. Og það sem verst var, Icesave eyðilagðist líka, og eignirnar fuðruðu upp. Meira liðið þessi íslenski almúgi. Ja ekki skildi mig undra þó duglegu víkingarnir vildu ekki vera að vasast með aura í þessu landi í framtíðinni. Það er bara stórtap á þessu. Ekki hægt að selja flatskjáina upp í Icesave og bjarga okkur frá Bin Laden lögunum þeirra Brúnka og Elskunnar.
Nú notum við bara Icesave, Icesave í staðinn fyrir Úlfur Úlfur. Það ætti að virka, eða hvað?
Og hana nú.
19.11.2008 | 13:00
Geir, alvöru eða spítu, ha?
Ég er orðinn hundgamall karl. Var enn með bleyju og pela þegar Davíð kallinn fæddist. Og ég man þá tíð þegar Geir var ný tálgaður og málaður. Leit út eins og lifandi, en samt með strengina. Þá var hann til alls líklegur. Flottur (spítu) strákur. Svo kom Bláa Dísin og strengirnir féllu. Hann fékk sinn Tuma. En sá Tumi var ekki lítil krybba. Hann reyndi og fór eftir samvikunni, og alltaf færðist hann nær takmarkinu. Að verða alvöru strákur. Og þetta var alveg að koma. Letingjaland leyfði strákunum að skemmta sér lengur og meira í þetta skipti. En einn og einn týndu þeir tölunni, og voru sendir í áþján peninganna. Asnakjálkar. Allt í einu, eins og fret úr löngu dauðum kroppi, var Letingjalandi lokað. Geir kominn með eyrun og halann. Tumi farinn með meðalíuna sína, og hættur að vera samviska. Hvað verður nú til ráða? Þetta er agaleg uppákoma. Bláa Dísin hefur yfirgefið svæðið, og kemur ekki aftur. Nú er bara að sjá hvort þróunin heldur áfram, og hófar fara að myndast og málið að breytast í hrynur. Þegar það fer að gerast, er það orðið of seint. Og asninn sprettur fram fullskapaður og verður aldrei alvöru strákur. Ekki einu sinni spíturass. Gosa tókst það þó, því hann lagðist í nánast vonlausan björgunarleiðangur til þess að frelsa pabba sinn og það sem honum var kærast. Honum tókst að fá monsterinn til þess að opna gaphúsið, og sleppa út. Með miklu harðfylgi og hug, komst hann frá skepnunni. En hann færði fórn sem er táknræn í sögunni. Hann lét lífið sem spítustrákur með asnaeyru og hala, og fékk líf alvörustráks að launum fyrir sitt framlag.
Nú er það spurningin hvort Geir vill spretta upp kvikindinu, og sjá hvað það hefur að geyma? Til þess þarf að svæla út óþverrann og opinbera hann. Getur hann það? Hefur hann þorið og styrkinn til þess. Hann hefði þjóðina með sér í þeim slag. En það er spurning hvort við, heildin getum gefið honum það support sem hann þarf til þess að verða alvöru strákur. Það verður sársaukafullt, og mikið um ýlfur og skræki. En ef tekst að draga út það sem heldur viðurstyggðinni lifandi og kála því, þá gengur þetta.
Geir, slægðu kvikindið. Dragðu ormana út. Þeir eru sumir ljótir og feitir. En það mun skila sér.
Og hana nú.
19.11.2008 | 00:43
Skuldar Þúsund milljarða hvað?
Hvernig ósköpunum gat þetta gerst og hvaða heljartök hafði þessi aðili á íslensku bönkunum?" spurði Davíð. Ef erlendum bönkum hefði verið þetta ljóst þá hefði allt hrunið hér. Ef allir frjálsir fjölmiðlar hefðu ekki verið í eigu eigenda bankanna þá hefði kannski verið upplýst um málið. Menn virðast ekki hafa lært neitt og eru jafn hræddir og fyrr, sagði Davíð
Maður sem er búinn að uppgötva það, að ef hann getur slegið 10 milljarða og getur veiðsett skuldabréf upp á móti, sem enginn getur sannreynt að séu ekki þess virði, hítur að gera það. Til þess að fá bankastjóra til þess að skrifa upp á 10 milljarða lán er ekki þungt í vöfum, ef bankastjórinn fær 1% í sinn hlut. Í formi verðbréfa, forréttinda og annað, eða bara í beinhörðum. Jafnvel bara 0,1% er bara dágóð summa. Ég tala ekki um 1,000,000,000,000 króna. Þetta eru svo mörg núll að, það nálgast núll. En 0,1 % af þessari tölu er þá = 1,000,000,000. Bjarni Ármannsson náði út 7,000,000,000, þannig að 1% er sennilega nærri lagi. Það þarf engin hreðjatök á bankastjóra sem á von á þessari summu bara fyrir að lána annarra manna peninga. En hvílík vitleysa er þetta eignilega. Auðvitað hefur Davíð vitað hvað lá að baki.
Þá kemur spurningin. Með allt það sem Davíð hefur á bak við sig, hvernig gat hann látið þetta gerast óátalið? Davíð lætur eins og hann beri hag Íslands og íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti. Hvernig gat hann þagað yfir því við almenning að það væri verið að sóa sparnaði landsmanna í tóma vitleysu, eins og kaup á flugfélögum, sem voru seld stuttu seinna með bókfærðum hagnaði (pappírum) sem kallaði á annað lán. Sama félag keypt og selt til skiptis á milli sömu manna, og alltaf var hagnaðurinn að aukast í hvert skipti. Bankastjórarnir vissu að þetta var allt saman tóm tjara, en aðalmálið var að þeir fengu bitlingana sína Þeir vissu líka að það stóð ekkert, nákvæmlega ekkert á bak við allar trilljónirnar sem þeir voru að lána út. En sparnaður fólksins sem það var að vinna fyrir hörðum höndum var sogaður út af reikningum þeirra og dælt inn á aðra reikninga sem enginn nema eigandinn veit hvar er. Eitthvað fóru peningarnir. Einhverstaðar eru þeir. Bara ekki þar sem þeir ættu að vera. Þetta er nákvæmlega það sem heitir að vera snuðaður í viðskiptum. Plataður, og ekkert hægt að gera í málinu löglega. Engan hægt að sækja til saka, enda eru allir blásaklausir. Það voru einhverjir aðrir sem stálu fé fólksins. Englendingar sáu hvað var í gangi, og vilja ekki að þeirra þegnar verði snuðaðir á sama hátt. Þannig hafa þeir beitt áhrifum sínum þannig að við skulum borga fyrir svikahrappana. Svikahrapparnir sitja svo á milljörðunum sínum og hlægja að öllu saman. En hugsið ykkur. Til þess að ræna íslensku þjóðina fengu þeir ekki nema 1% í sinn hlut. Maður hefði nú farið fram á 25/75 a.m.k.
Það er ekki nóg, að allt sparifé landsmanna sé horfið. Heldur standa þeir í stórskuld ofan á toppinn af öllu saman. Maður sem átti t.d. 30 milljónir eftir ævilangan sparnað, hefur tapað þeim peningum og öðru eins í viðbót. Semsagt átti 30 milljónir á þurru í banka eftir að hafa greitt sína skatta og skyldur, en tapaði samt 60 milljónum á öllu saman. Meira kexið.
Og svo virðist sem einhverjir séu ennþá á fjárfestingafylliríi. Það þýðir að það eru einhverjar dreggjar eftir sem á eftir að sjúga upp. Það vitlausasta af þessu öllu saman er, að þessir gaurar eru enn á fylliríinu sínu, en við að taka út þynnkuna. Draumur allra alkóhólista geri ég ráð fyrir
Ef Davíð hefði verið eins mikill patriot og hann vill vera láta, hefði hann komið fram opinberlega, á öllum sjónvarpstöðvum og sagt: Góðir landsmenn, hafið mín ráð, og farið í bankann ykkar og takið út allt ykkar sparifé, og stingið undir koddann. Bankarnir hefðu líka farið á hausinn við það, en aurarnir okkar væru núna undir koddanum okkar, en ekki á reiknigum svikahrappa í útlöndum. Og þú Davíð minn værir heitt elskaður í dag með 132% fylgi.
Og hana nú.
18.11.2008 | 00:59
Aulabrandarar Davíðs!
Það er ekki laust við að ég vorkenni Davíð kallinum að vera búinn að koma sér í þessa aðstöðu. Það hlýtur að vera erfitt að vinna að þeim málum sem hann á að vera að vinna að, með 90% þjóðarinnar á móti sér. Allavega treysta 90% honum ekki samkvæmt skoðanakönnun fréttastofu stöðvar 2. Þó skekkjan væri töluverð, eru þetta samt sláandi tölur fyrir Davíð. Þannig getur hann reiknað út, að á bak við þennan háværa hóp á Austurvelli sé hinn þögli hluti, gríðarlegur hópur. Þó honum þyki hópurinn sem sýndi sig heldur lítilfjörlegur, og kennir útliti sínu um, getur hann huggað sig við þessa útkomu. Kannski lítur hann ekki svo illa út eftir allt saman. Ég vorkenni honum, því ég reikna með að hann sé í norminu, og þá hlítur öll útkoman, bæði hrunið í kerfinu og stuðningstölurnar, að hafa veruleg áhrif á sálartetrið. Ef það gerir það ekki, þá er eitthvað óskiljanlegt að gerast hjá manninum. Aulabarandarar Davíðs eru sennilega lýsandi dæmi um ástandið hjá honum. Gott dæmi um aulabrandara, var þegar Dísarfell fórst fyrir sunnan land og tveir menn létu lífið þar. Menn voru komnir í sjóinn í flotgöllunum sínum og veltust um í hafróti og brotsjóum. Ekki glæsilegt fyrir þessa menn í svona aðstöðu. Þeir höfðu bundið sig saman og voru því í einni bendu. Einn mannana segir við annan til hughreystingar.Það er búið að panta þyrluna, hún kemur bráðum að sækja okkur. Hinn svarar:Æ, ég ætla þá að leggja mig aðeins. Ræstu mig þegar hún kemur.
Ég á lítinn strák sex ára, sem er aðeins inni á einhverfurófinu og er ekki alveg að skila frá sér, því sem maður getur kallað eðlilegt miðað við aldur. Stundum grípur hann frasa, sem koma fram við aðstæður sem passa ágætlega við. Hann hafði heyrt mig segja við konuna mína:Aumingja Davíð, að vera bankastjóri í seðlabankanum núna. Vinur minn kom í heimsókn daginn eftir, og við töluðum um alla heima og geima. Litli kallinn stóð þarna og fylgdist með. Svo bar Davíð á góma. Þá heyrist í litla kallinum. Davíð er aumingi í Seðlabankanum núna. Við vinirnir einfaldlega lögðumst emjandi í gólfið. Ég er enn með smá harðsperrur í sekknum.
Allri alvöru fylgir jú eitthvert gamni, eða þannig.
Og hana nú.
16.11.2008 | 20:24
Ársreikningar verði í evrum, hvað?
Finnbogi Jónsson skrifar í Mbl. 16.nóv.2008
Að ársreikningar og þarmeð allir rekstrarreikningar verði í evrum hjá öllum fyrirtækjum í landinu er gott og blessað. En hvað með ársreikninga fjölskyldunnar. Ég sé hvergi minnst á hið vinnandi afl. Mér finnst annaðhvort skuli öll uppgjör gerð í evrum, eða engin. Það skekkir heildarmyndina, ef fyrirtæki geri upp í evrum, en laun séu reiknuð í krónum. Ef menn vilja eitthvað vera að vasast með evrur, þá skuli bara skifta yfir í evru. Þá verður þetta bara sjálfgefið. Allir geta reiknað í evrum. Jafnrétti þarna líka.
Þegar hjón giftast, hvernig svo sem hjónabandið er nú samsett, eru settir upp hringar. Venjulega gullhringar. Það væri ekki jafnrétti á hvorn veginn sem væri, að annar hringurinn væri úr gulli, en hinn úr blýi. Þessir tveir málmar hafa háa eðlisþyngd, en mishátt verðmæti. Hvor aðilinn ætti að bera hvorn? Þetta er í sjálfu sér léttvægur samanburður. En upprunalegt hlutverk hringsins, er verðmæti sem hægt var að selja í neyð. Eins konar trygging til handa báðum aðilum. Síðan hafa þessi hringabítti orðið táknræn, en ekki með ætlunarverk eins og áður var. Þetta er eldgamall siður, og sumstaðar í austurlöndum er þetta virkt enn í dag.
Ég er nú bara að bera þetta saman við það, að einn hluti þjóðfélagsins skuli vera með öll umsvif í gjaldmiðli sem er einhvers virði, en annar skuli bara dúllast með íslenskar plattkrónur. Eitt skal yfir alla ganga hér. Jafnvel þótt laun hér á landi verði 30% af launum annarstaðar í Evrópu. Í raun kunna atvinnurekendur alls ekki að skammast sín fyrir það sem er að gerast hér. Sérstaklega ekki þeir sem eru í ágætis stöðu þrátt fyrir allt. Lágmarks laun í Danaveldi eru einhverstaðar nálægt 20,000. dkr. Lágmarkslaun hér á landi eru 136.000. pl.kr. Nú ekki auðvelt að reikna út mismuninn þar sem enginn veit hvert gengi plattkrónunnar er. En 20.000. dkr. eru einhverstaðar á milli 400.000 og 500.000 pl.kr. Auðvitað eru atvinnurekendur að hræra í launþegum með dulbúinni hótum um atvinnumissi og allt það. Ég held að nú sé mál að linni. Ætlunin er að velta öllu skuldafenininu yfir á launþega og ekki nóg með það. Launþegar eiga líka að borga fyrir það að koma allskonar smáfyrirtækjum á laggirnar með lúsarlaunum, eða helst engum launum. Veita skattaívilnanir á kostnað venjulegra skattgreiðanda. Velta verðlaginu, lánaokrinu og yfirleitt öllu sem skussarnir geta grætt á yfir á launþega, öryrkja, gamalmenni, og börn þeirra. Milljarðaþjófarnir labba enn um með montprikin sín eins og ekkert hafi í skorist og heimta ívilnanir og eftirgjafir, afslætti og greiðslufresti. Á glarmúrmáli heitir þetta;Nú verða allir að standa saman og vera jákvæðir. Á mannamáli;Nú skulið þið allir fá sultarlaun, ekkert múður og þegja svo,
HVAÐ Á ÞETTA EGINLEGA AÐ ÞÝÐA!
OG HANA NÚ.
16.11.2008 | 02:08
Björgólfur ritskoðari hvað?
Í DV er Björgólfur Guðmundsson kallaður Ritskoðari á fjölmiðlamarkaði. Kallinn er nú ekki efstur á vinsældarlistanum mínum eins og margra annara. En hvað er verið að tala um. Hann keypti upp bókaupplag, þar sem eitthvað var sagt um konuna hans, og honum líkaði það ekki. Ég hefði nú gert það sama, ef svona uppákoma hefði orðið hjá mér. Þetta er eins og að maður væri beðinn um að skrifa æfisögu sína, en mætti ekki þegja yfir þeim atriðum sem manni þætti vera sitt algjöra prívat. Til hvers er verið að ætlast. Hver getur skrifað æfisögu sína, og látið allt koma fram óritskoðað? Hvaða bull er þetta. Allavega hefði átt að spyrja Þóru um það áður, hvort hún væri sátt við þessa umfjöllun eins og hún var. Þá hefði bókin verið prentuð óritskoðuð, eða hvað?
Ég hef ekki lesið sögu Thorsarana. Ég ætla ekki að lesa hana. Afi minn byrjaði að vinna hjá Milljónafélaginu, þegar hann var 15 ára, og hætti hjá Kveldúlfi þegar hann var 80 ára. Það er, að hann vann hjá Thors í a.m.k. 60 ár. Aldrei heyrði ég hann segja eitt einasta styggðaryrði um þá fjölskyldu. Einu sinni sagði ég eitthvað um Óla Thors, sem átti að vera brandari. Minn gamli tók mig á beinið. Hann sagði mér hvað gamli Thor Jensen hafði gert í gegnum tíðina, og í dag dettur mér helst í hug Jóhannes í Bónus, og hans tilstuðlan til kjarabóta fyrir alla landsmenn. Það verður ekki frá honum tekið hvað svo sem Jón Asgeir gerir o.s.fr.
Eftir þessa uppákomu með brandarann, sagði hann mér ýmislegt um þessa fjölskyldu og framkomu hennar. Ég trúi því sem hann sagði. Aðal ástæðan fyrir því að ég trúi því, er sú, að amma, sem var jú gift afa, var ekki neinn Thorsara dýrkandi. En hún sagði mér, að þetta væri satt, allt saman. Þannig að ég þarf ekkert að lesa um þetta fólk. Þetta voru bara gull af mönnum. Framhaldið í yngsta Thorsaranum, þennan með koffortin, verður saga til næstu kynslóðar. En hverjum Þóra var gift, og hvað hann var að gera, kemur engum við, ef hún vill ekki að okkur komi það við. Þannig er það bara með alla menn og konur.
Verst þykir mér, að Björgólfarnir hafi ekki komið aðeins fyrr. Þá stæðu hin gullfallegu Kveldúlfs hús við Skúlagötu sennilega enn. Þau hús voru byggð af mikilli dirfsku á þeim tíma. Þau voru risastórt antik. En peningagræðgin og yfirgangur nokkurra aðila, eyðilagði húsin og byggði þetta líka monsterium ofan á rústunum. Þvílíkt og annað eins. Þessi kolsvarta blokk verður aldrei antik. Hún verður sígild. Sígilt dæmi um græðgi, hroka og eimtromlu pólitík. Valta bara yfir allt og alla. En ég náði mér í hrosshaus norður í Skagafjörð, og ég og hausinn sátum niðri á Klöpp gegnt Eikt. Þetta svínvirkaði, þó við sætum ekki saman þarna nema í 2 klukkutíma. Eikt hörfaði frá dæminu í Skugga, og blokkin ber merki Grána ennþá. Það tollir ekkert utan á henni, og að innan er hún eins og Undraland. Þetta verður aldrei annað en spítukarl. Aldei alvöru strákur. Nú er það spurningin með ÍA. Lifa þeir Grána af? Góð spurning. Gráni er kominn norður aftur á sinn stað. Kannski er einhver galdraseiður sem býr í blokkinni sem getur varist þessu úr því að sá veit þetta núna. Menn eru með ýmsar getgátur um það, af hverju þessi hús eru svona óstýrilát. M.a. illa byggð, gallaðar flísar og bla bla. Ég held að þau séu bara að liðast í sundur. Allt í mikrómetravís, en hægt og bítandi. Hvenær það gerist að þetta hrynji saman veit enginn. En það kemur að því. Nú og svo koma þau til með að verða umflotin sjó áður en langt um líður. Það er gert ráð fyrir að sjávarborð hækki um 6 til 8 metra. Þá verða Skuggablokkarmenn að fá sér BMW bátaflota í skiptum fyrir bílaflotann.
Og hana nú.
15.11.2008 | 23:55
Hryðjuverkamenn og skíthælar.
Gunnar S. Egilsson blaðamaður skrifar grein á síðu 42 í Mbl. 15.nóv. 2008
Óreiðu og fjárglæframenn o.s.fr. Innihald greinarinnar er í raun einn smellurinn í rassskellingu liðsins í brúnni. Þar er allt sem í raun segja þarf.
Ég skrifaði ekki undir það að ég væri hryðuverkamaður. Ef bresk stórnvöld hafa ákveiðið að ég sé einn slíkur, þá breytir engu hvað ég segi. Ég er í raun stoltur af því að enn eina ferðina hef ég fengið þennan stimpil hjá þeim. Þeir gera þetta þegar þeir eru komnir í þrot. Þetta var gert í Þorskastríðinu, og beittu þeir herafli á okkur hryðjuverkamennina, sem voru að taka fiskinn út úr munnum litlu barnanna í Bretlandi. Þeir eru hræddir við okkur, og reyna að nota svona græju til þess að koma á okkur höggi. Eiginlega merkilegt að þeir sendu ekki Falklands flotadeildina til þess að taka bara eyjuna. Sennilega ekki þorað það af ýmsum ástæðum eða haldið að þegar flugsveitin væri lent á Miðnesheiðinni til loftferðaeftirlits, væri björninn unninn. Allavega riðu þeir grindhoruðum hesti frá deilunum 1976. Ég sá það einhverstaðar að þeir tala um ásættanlegt samkomulag. Hvergi að þeir hafi verið flengdir sundur og saman. Það var nú tilfellið, og þeir eru ekki búnir að gleyma því. Ég kunni heldur ekki við að skrifa undir þetta plagg í ljósi þess, að vera einn af fáum, sem fengu tækifæri til að beita 50 mm stálsprautu á breskan togara þ. 19. júlí 1974. Og þar á eftir að arresta skipið ásamt sex öðrum og þá allir þrælvopnaðir. Dick kallaði mig terrorist, því hann sá mig við byssuna. Well. Terroristi eða ekki. Sama er mér. Enda tel ég að þessum hafi ekki verið beitt gegn þegnum þessa lands svona almennt séð. Heldur gegn stjórnvöldum. Það er vonandi rétt skilið hjá mér úr grein Gunnars Smára, að stjórnvöld hafi í raun platað almenning til þess að skrifa undir þetta. Þar sem það virðist vera viðtekið, að Bresku ráðherrarnir og þeir Íslensku, skilji ekki almennilega hvern annan, að þá má búast við að Brown og Co taki þennan undirskriftalista sem stuðningslista við ríkistjórn íslands. Ekki eitthvert persónulegt mál sem var verið að koma á framfæri.
Það getur verið að það séu skíthælar þarna á meðal. En ég vil nú ekki skrifa undir það með mínu nafni. Það er þá algjörlega óviljandi ef svo er.
Kristján Kristjánsson prófessor skrifar til viðskiptaráðherra á síðu 44.
Því miður fyrir Kristján, treysti hann bankanum sínum. Og allra Landsmanna . Ég treysti engum banka og hef aldrei gert. En Landsbankinn var efstur á óvinsældalistanum hjá mér. Hann LÍ, stal af mér æfistarfinu fyrir mörgum árum og rúmlega það. Það hefði verið fatalt að láta það gerast aftur. Þegar ég sá að þrátt fyrir viðleitni mína til þess að rísa upp úr öskunni og standa við mitt svo langt sem það náði, að þá gleymir Landsbankinn engu, aldrei. Ég geymi alla pappíra frá þessum tíma, því ég vona að ég geti einhverntíma notað þá til þess að fá aftur það til baka sem þeir stálu. Það er reyndar eins miklir möguleikar á því og að einhver heyri til mín á tunglinu. LÍ gleymir engu og eru snillingar í að fela slóðir. Björgvin getur varla breytt neinu þar um. Björgólfur fór með aurana þína í kofforti ríðandi á einkaþrýstiloftsvélinni sinni eitthvað út í heim. Þar situr hann á koffortinu með flösku af Pink eitthvað og skellihlær að þér og öllum hinum sem voru í Letingjalandi. Hríííííííínöhööööö..... Var þetta ég?
Hvernig væri að leigja sér spóluna um Gosa, og herma hana upp á sjálfan sig. Ég geri það. Ég bara vona að enginn sjái asnaeyrun og halann. En auðvitað sjá þetta allir. En þeim finst það eðlilegt, því þeir eru allir þannig. Og þegar allir eru orðnir afbrigðilegir, á er normið orðið afbrigðilegt. Eða þannig.
Og hana nú.
15.11.2008 | 22:43
Heimilum hjálpað.
Morgunblaðið 15. nóvember 2008
Stórfyrirsögn. Heimilum hjálpað Hjálpað til hvers? Létta greiðslubyrði sem skipstjórinn kom uppá fólk með ruglsiglingu sinni. Þarna standa þau, skipstjórinn og yfirstýran, ekki brosandi þó, enda væri það dálítið broslegt . Í raun held ég að þau ættu bara að hætta þessu brölti og fá sér bara vinnu í landi, ef þau eru þá nothæf.
Það hafa verið notaðir frasar um það sem er að gerast í efnahag þjóðarinnar, eins og stórsjóir, brotsjóir, hamfaraveður og ég veit ekki hvað. Í fyrsta lagi veit enginn nema sem hefur reynt það sjálfur hvað svona orð þýða. Þetta er svona álíka eins og þegar Gaui skipstjóri á Boggunni, skrifaði sjálfsævisögu sína. Titillinn var Um Heimshöfin Sjö Hann hafði jú verið á Boggunni í 50 ár. Kannski skipstjórinn skrifi sögu sína undir titlinum; Í stormi og stórsjóum.
Nú á semsagt að fara að hefja hjálparstarfið. Það er eins og náttúruhamfarir hafi orðið. Og nú þurfi fólk hjálpar við. Þetta er bara ekki þannig. Þetta var búið til af mannavöldum. En það er að bitna á fólki sem tók ekki þátt í þessu, nema að mjög litlu leiti. Það á ekki að hjálpa þessu fólki. Það á að borga því til baka sem frá því var tekið. Skipstjórinn og útgerðin eru ábyrg og eiga bara að skila þessu til fólksins. Ef það er ekki hægt að ná þessu af bruðlsliðinu sem er búið að koma góssinu á bankareikninga á Karabísku eyjunum, þá verður útgerðin bara að borga. Við þurfum enga hjálp frekar en Icesave reikningseigendur. Þeir vilja enga hjálp. Þeir vilja bara fá peningana sína til baka, og ekkert muhu með það. Ef ríkið hefur ekki tök á að ná þessum peningum til baka frá þotuliðinu, þá verður bara að beita einhverjum öðrum ráðum sem duga. Hvaða ráð mundu t.d. Rússnesk yfirvöld nota? Þau eru fullkomlega lögleg yfirvöld og enginn hefur borið brigður á aðferðir þeirra opinberlega. Nokkrir blaðamenn, sem voru kvaddir í kútinn. Engar svokallaðar lýðræðisríkistjórnir beittu sér í þeim málum. Þannig getur íslenska ríkið tekið sér Pútin og hans menn sér til fyrirmyndar á meðan aurarnir eru að skila sér. Hann er nefnilega alvöru skipstjóri. Lætur ekki einhverja peningakalla plata sig. Hann er svo klár, að í dag þorir enginn frá þessum svokölluðu kurteisisríkjum að reyna neitt við hann í orðaskaki. Hann bara kveður þá svo alvarlega í kútinn að ekkert nema stór skammtur af valíum getur gert þeim gott á eftir. Þið vitið hvað ég meina.
Og hana nú.
15.11.2008 | 21:18
Nú er ráð!
Þar sem við erum búin að tapa aleigunni og mikið rúmlega það, allan sparnað ríkis, sveita, fyrirtækja og einstaklinga til margra ára og mörg ár fram í tímann. Þá væri best að klára dæmið og brjóta niður allan ósómann sem búið er að hrófla upp hér í miðborginn. Tökum til dæmis skuggablokkirnar. Það þarf nú engan speking til þess að sjá, að það hefur ekki verið farið eftir grenndarkynningu eða samþykktum. Síðustu tveir turnarnir eru ekki eins og sá fyrsti. Þeir eru stærri. Svindl og svínarí eins og von var og vísa. Stúdentablokkirnar við Lindargötu. Hvaða bjálfar hönnuðu þennan óskapnað. Maður gæti haldið að þeir hefðu setið í Sing Sing og fengið réttindin sín í gegnum ritskoðaðan bréfaskóla. Ekki hefur verið farið eftir kvöðum um bílastæði, enda eru allar gangstéttar í kringum monsterinn þéttsetnar blikkbeljum þessa fólks, þannig að þeir sem aka um í hjólastólum eða með hjálpargrindur, komast hvergi. Það er nú bara lágmark, að þessir ömurlegu nágrannar sjái sóma sinn í því að finna einhverstaðar bílastæði þó þeir þyrftu að tölta einhvern spöl heim í braggann. Gott væri að losna við allan komplexinn eins og hann leggur sig, frá Ingólfsstræti að Snorrabraut (kannski Kalkofnsveg 1 líka) og endurheimta útsýnið frá miðborginni. Ég tala nú ekki um sviftivinda harmoníuna sem orsakast af þessum kumböldum. Þetta kostar ekki nema 3-4 afsagnarsamninga fyrrverandi bankastjóra. Burt með þetta drasl, og þar myndum við líka losna við óþægilegar minnigar um sóun og bruðl þessara tíma. Því þetta er og verður minnismerki um það sem hér hefur gerst, svo lengi það fær að standa. Þetta var nú líka hugarfóstur krumma, sem skyndilega er hættur að krunka og flögra. Skildi hann hafa týnt flugfjöðrunum. Kannski situr hann bara á ruslahaugnum sínum í nesinu og bíður eftir brauðmola frá kónginum í Bikhöll. Þetta er nú meiri ólukkan
Í Mýragötu 2-6 er einn síðasti gamaldags slippurinn í Evrópu. Ferðamenn sem hingað koma eru alveg dolfallnir yfir þessu apparati. Það er mikið tekið af myndum í gegnum portdyrnar í Ægisgötu. Nú væri ráð að hætta við að eyðileggja hann en breyta þessu svæði í hluta af sjóminjasafninu á Grandanum. Reyndar mætt jafnvel taka upp smærri skip og gera þau sjóklár þarna.
Það er búið að eyðileggja Stálsmiðjuna. Það verður ekki aftur tekið.
Þar sem Hraðfrystistöð Reykjavíkur var við Mýrargötu er verið að byggja enn einn vitleysingakompexinn enn og hver ætli vilji kaupa sér húsnæði þarna. Huh.
Úti í Örfirisey er búið að valda þvílíkum spjöllum. Þarna voru matarkistur æðarfugls í þúsundatali. Allt er farið. Grámyglulegar lagerbyggingar á svæðinu, sem standa á uppfyllingu sem tekin var á grunnslóð hér í flóanum og Hvalfirði, og ég tala nú ekki um olíudunka stelþjófafélaganna.
Burt með þetta drasl.
Og hana nú.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar